Enski boltinn

Jürgen Klopp mikill aðdáandi Rocky-myndanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, Sylvester Stallone og Rocky.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, Sylvester Stallone og Rocky. Mynd/Samsett mynd
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sló að venju á létta strengi á blaðamannafundi en það er nánast hægt að ganga að því vísu að Þjóðverjinn bjóði upp á eitthvað skemmtilegt á þessum fundum.

Liverpool mætir Everton á mánudagskvöldið í lokaleik sínum fyrir jól en leikurinn fer fram á Goodison Park. Klopp komst á því í gær að Goodison Park kemur við sögu í einni Rocky-myndanna.

„Það var algjör tilviljun en ég fór í jólapartý í gær og þegar ég kom heim hafði ég ekkert að gera. Ég ákvað að horfa á myndina Creed sem var mjög góð,“ sagði Jürgen Klopp og bætti við:

„Ég hafði ekki hugmynd um að Goodison Park kæmi við sögu í myndinni. Hann leit vel út en ekkert meira en það,“ sagði Klopp brosandi. Bardaginn í Creed fór einmitt fram á Goodison Park en Sylvester Stallone er mikill Everton-maður.

„Þegar ég var yngri reyndi ég einu sinni að nota söguna úr Rocky IV, þegar Rocky mætir Ivan Drago, á fundi með leikmönnum mínum. Eftir aðeins fimm mínútur fór ég að átta mig á því að leikmennirnir höfðu ekki hugmynd um það sem ég var að tala um,“ sagði Klopp.

„Ég varð að hætta með söguna því aðeins tveir af leikmönnunum höfðu séð myndina,“ sagði Klopp.

„Rocky er æðisleg saga. Ég hef elskað hann alla mína ævi. Kannski mun ég einhvern daginn hlaupa upp tröppurnar í Philadelphia en það verður ekki í þessari viku,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×