Enski boltinn

Alexis Sanchez fær ekkert að vita um framtíð Wenger

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sanchez og Arsene Wenger.
Alexis Sanchez og Arsene Wenger. Vísir/Getty
Sílemaðurinn Alexis Sanchez hefur átt frábært tímabil með Arsenal og ensku blöðin  slá upp fréttum af samningaviðræðum hans við Arsenal.

Uppsláttur The Mirror vekur aftur á móti athygli því blaðamenn þar á bæ hafa heimildir fyrir því að forráðamenn Arsenal geti ekki lofað Alexis Sanchez neinu þegar kemur að því hver verði knattspyrnustjóri liðsins.

Arsene Wenger hefur verið knattspyrnustjóri Arsenal frá árinu 1996 og mörgum stuðningsmönnum félagsins finnst kominn tími á ferska vinda um stjórastólinn.

Samningur franska stjórans rennur út í vor og þrátt fyrir frábæran árangur liðsins undir hans stjórn hefur Arsenal ekki orðið enskur meistari í meira en áratug.

Það var almennt talið líklegt að Wenger myndi framlengja um eitt eða tvö ár og sjá svo til. Hann er orðinn 67 ára gamall og hefur verið í þessu starfi í tvo áratugi.

Það er hinsvegar ljóst að inn í framtíðarplön Wenger blandast einnig óvissuástand um að Arsenal eigi enn á ný í hættu á að missa frá sér stjörnuleikmenn. Þeir hafa ófáir yfirgefið félagið á síðustu árum til að elta vænlegri tilboð annarsstaðar frá

Arsenal er þessi misserin að reyna að semja við bæði Alexis Sanchez og Mesut Özil sem báðir vilja fá væna launhækkun. Það er ljóst að það væri afar slæmt fyrir félagið ef annar þeirra færi hvað þá báðir.

Ensku blöðin smjatta á óvissunni og sum eru meira segja á því að Arsene Wenger gæti hreinlega hætt ef félaginu takist ekki að semja við þá Alexis Sanchez og Mesut Özil. Það fer ekkert á milli mála að framtíð þessara þriggja, Wenger,  Alexis Sanchez og Mesut Özil, er í uppnámi.  Stuðningsmenn Arsenal fylgjast því spenntir með öllum fréttum á næsttunni.

Alexis Sanchez og Arsene Wenger.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×