Erlent

Fundinn sekur um að myrða níu manns í kirkju svartra í Charleston

Anton Egilsson skrifar
Dylann Roof í dómsal.
Dylann Roof í dómsal. Vísir/Getty
Dylann Roof hefur verið sakfelldur fyrir að skjóta níu þeldökka einstaklinga til bana í kirkju í borginni Charleston í Bandaríkjunum í júní á síðasta ári.  Á Roof ekki að hafa sýnt nein viðbrögð er niðurstaðan var lesin upp. BBC greinir frá. 

Refsing yfir hinum 22 ára gamla Roof verður kveðin upp þann 3. janúar næstkomandi en dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur farið fram á dauðarefsingu yfir honum.

Lögregla segir Roof hafa setið á meðal sóknarbarna í klukkustund áður en hann hóf skothríðina í kirkjunni. Var hans leitað í nokkra klukkutíma eftir ódæðið en hann var handtekinn í um 300 kílómetra fjarlægð frá kirkjunni í Charleston.

Móðir Roof fékk hjartaráfall í dómsal í Charleston á miðvikudaginn skömmu eftir að saksóknarar lýstu því hvernig sonur hennar skipulagði og framkvæmdi morðin.

Roof á að hafa sagt í kirkjunni að hann „yrði að gera þetta“ og að svart fólk ætti að fara aftur til síns heim. Skömmu eftir árásina greindi æskuvinur Roof frá því að þeir hefðu farið saman á „fyllerí“ nokkrum vikum áður þar sem Roof átti að hafa lýst yfir áhyggjum af því að svart fólk væri að taka yfir heiminn. 


Tengdar fréttir

Fékk skotvopnið í afmælisgjöf

Kynþáttahatur bjó að baki þegar Dylann Storm Roof myrti níu manns, sex konur og þrjá karla, í kirkju í borginni Charleston í Suður- Karólínu. Roof hafðist við í kirkjunni í um klukkustund áður en hann hóf skothríð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×