Erlent

Kínverjar vígbúa eyjur sínar í Suður-Kínahafi

Samúel Karl Ólason skrifar
Gervihnattamyndir sem sýna vopnbæðingu eyjanna.
Gervihnattamyndir sem sýna vopnbæðingu eyjanna. Mynd/AMTI
Hernaðaryfirvöld Kína virðast hafa komið fyrir umfangsmiklum loftvörnum á tilbúnum eyjum sínum í Suður-Kínahafi. Miklar deilur eru uppi varðandi hafsvæðið, sem er ríkt af auðlindum og mikilvæg skipaleið. Auk þess að koma fyrir loftvörnum eru þeir sagðir hafa komið fyrir vörnum gegn eldflaugum á eyjunum.

Í skýrslu bandarískrar hugveitu voru birtar gervihnattarmyndir sem sýna fram á umfangsmikla uppbyggingu á eyjunum. Xi Jinping, forseti Kína, lýsti því yfir í heimsókn sinni í Bandaríkjunum í fyrra að ekki stæði til að koma vopnum fyrir á eyjunum.

Þó nokkur lönd gera tilkall til mismunandi hluta Suður-Kínahafs, en Kínverjar gera tilkall til nánast alls svæðisins og eyja og rifa sem þar má finna.

Alþjóðagerðardómurinn í Haag hefur úrskurðað að tilkall Kína til hafsvæðisins sé ólöglegt. Stjórnvöld í Kína sögðust þó ekki ætla að sætta sig við úrskurðinn og hunsuðu hann.

Hugveitan AMTI hefur verið að fylgjast með byggingum á eyjunum um nokkurra mánaða skeið, með því að notast við gervihnattamyndir. Hugveitan segir þessa uppbygginu vera til marks um þess að Kínverjum sé alvara um að verja eyjurnar ef til átaka kæmi á svæðinu.

Auk áðurnefndra varnarbygginga hafa flugvellir og flotastöðvar verið byggðar á svæðinu.

Varnarmálaráðuneyti Kína lýsti því yfir í dag að vopnvæðing eyjanna væri fullkomlega lögleg og nauðsynleg, að því er fram kemur í frétt BBC.






Tengdar fréttir

Kínverjar senda Bandaríkjunum tóninn

Þann 12. júlí mun Alþjóðlegi hafréttardómstóllinn í Hauge fella úrskurð í máli Filippseyja gegn Kína vegna Suður-Kínahafs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×