Menning

Nýtir sömu tækni og var notuð í Star Wars og fleiri kvikmyndum til að fjalla um líf, dauða og tímann

Magnús Guðmundsson skrifar
Elín Hansdóttir myndlistarkona í sýningarsalnum í Galleríi i8.
Elín Hansdóttir myndlistarkona í sýningarsalnum í Galleríi i8. Visir/Ernir

Elín Hansdóttir myndlistarkona opnar forvitnilega einkasýningu í Galleríi i8 í dag en það hefur verið í mörg horn að líta hjá listakonunni á þessu ári. Elín hefur verið búsett í Berlín síðustu tólf árin, þar sem hún lauk MA-námi frá Kunsthochschule Weissensee árið 2006. Hún segist þó hafa verið mikið á Íslandi síðustu þrjú árin en reyndar ferðast einnig talsvert mikið vegna vinnu. 

Aðspurð hvort það sé gott að vera myndlistarmaður í Berlín þá segir Elín svo vera. „Já, það er mjög fínt, en það er bara gott að vera myndlistarmaður hvar sem er í heiminum.“

Elín var með stóra sýningu í Ásmundarsafni fyrr á þessu ári, sýninguna Uppbrot, þar sem ný verk voru í samtali við verk Ásmundar Sveinssonar. „Það var svona síðasta stóra verkefnið hér en svo sýndi ég líka í Þýskalandi í sumar. En svo er ég búin að verja síðustu þremur mánuðum í þessa sýningu sem nú er komið að því að opna.“

Elín segir að verkið sé tilbúið til sýningar og hún sé orðin spennt að fá viðbrögð á það. „Það er nú þannig þegar maður sýnir að þá veit maður ekkert hvernig verkin munu hafa áhrif á fólk. Ég hef ekki sýnt þetta verk áður, það er sérstaklega gert fyrir þetta tiltekna rými og þessa sýningu.“

Verk Elínar kallast Simulacra og hún segir það vera innsetningu sem er byggð upp með níu ljósmyndum. „Þessar myndir eru ekki bara ljósmyndir, heldur eru þær byggðar á glermálverkum sem ég málaði og stilli upp í rýminu og tek svo ljósmyndir í gegnum glerið. Þetta er tækni sem var notuð í kvikmyndum fyrri tíma. Tækni sem frekar fáir vita um og er í rauninni fyrirrennari photoshop eða svona „special effects“ tækninnar. Fræg dæmi úr kvikmyndasögunni eru meðal annars Star Wars og Planet of the Apes en þá var þessi tækni notuð áður en að tölvurnar tóku við þessu hlutverki. Það sem heillaði mig var í rauninni að það væri hægt að skapa heim eða gjörbreyta sýn sinni á rými með svona einföldum hætti.“

Varðandi verk Elínar þá segir hún að það sé burðarsúla í miðju rýminu sem hún reyni í raun að stroka út. „Í hennar stað set ég svífandi blómvönd sem er að fölna. Þannig að þetta eru í rauninni níu sjónarhorn á þennan sama blómvönd sem eru tekin á mismunandi tímapunktum. Með hverri mynd og hverju breyttu sjónarhorni er hann nær dauða. Þetta er í rauninni eins og klukka. Þú horfir á súluna og í stað þess að sjá hana þá sérðu þennan svífandi og sölnandi blómvönd.“

Það eru stór umfjöllunarefni fólgin í þessu verki eða eins og Elín segir sjálf: „Þarna er verið að fjalla um líf, dauða og tímann. Það er nú ekki flóknara en það.“ 

En skyldu þessi yrkisefni hafa verið Elínu hugleikin? „Já, það má nú segja það. Þetta eru bara svona grundvallarspurningar sem maðurinn veltir fyrir sér. Þetta er kjarninn. Það er kannski ekkert eitt eða ákveðið sem leiddi mig þangað. Við myndlistarmenn erum soldið eins og síur sem draga til sín alls konar áhrif úr umhverfinu. Síðan verða hugmyndir til án þess að maður endilega viti í rauninni hvaðan þær koma. Þær hafa kannski verið að fæðast á löngum tíma en koma svo rétt eitt augnablik til þess að vera hrint í framkvæmt þó svo að maður sé alltaf að vaða út í óvissuna í hvert og eitt skipti.“

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. desember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.