Erlent

Þúsundir Pólverja mótmæltu ríkisstjórn landsins í dag

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mótmælin fóru fram á sama degi og Pólverjar minnast þess að 35 ár eru frá því að herlög voru sett í landinu af yfirvöldum þess tíma.
Mótmælin fóru fram á sama degi og Pólverjar minnast þess að 35 ár eru frá því að herlög voru sett í landinu af yfirvöldum þess tíma. Vísir/EPA
Þúsundir Pólverja mótmæltu ríkisstjórn landsins víðsvegar um Pólland í dag.

Tilefni mótmælanna var tillögur ríkisstjórnarinnar um skerðingu á frelsi fólks til samkomu á opinberum vettvangi sem og aðför hennar að lýðræði í landinu. Guardian greinir frá.

Verði tillögur stjórnarliða að veruleika verður öllum samkomum á vegum ríkisins á opinberum stöðum í Póllandi gefinn forgangur umfram aðrar samkomur sem skipulagðar eru af einstaklingum.

Þannig muni ríkisvaldið takmarka útgefin leyfi fyrir einstaka stuðningsgöngum og mótmælagöngum. Í grunninn þýðir það að erfiðara yrði fyrir almenning að skipuleggja mótmæli gegn yfirvöldum.

Í umsögn Evrópuráðsins um málið sagði mannréttindafulltrúi þess, Nils Muižneieks að tillögur stjórnvalda ættu ekki að verða að lögum þar sem þær vega að mannréttindum á sama tíma og þær skerði frelsi fólks til þess að geta komið saman á opinberum vettvangi að eigin vild.

Tóku skipuleggjendur mótmælanna það fram að þeir væru að mótmæla ófrjálslyndri stefnu stjórnvalda en hætta væri á því að mikilvægar lýðræðisumbætur sem hefðu orðið í landinu frá falli kommúnismans árið 1989 gætu glatast.

Dagsetning mótmælanna er táknræn en í dag minnast Pólverjar þess að 35 ár eru liðin frá því að kommúnistastjórn landsins setti á ströng herlög sem vörðu í nokkur ár í tilraun til þess að bæla niður pólítíska mótspyrnu, en þúsundir voru fangelsaðir á þeim árum og tugir létu lífið.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×