Erlent

Maðurinn sem reyndi að myrða Donald Trump dæmdur í eins árs fangelsi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Á myndinni má sjá Michael Sandford ásamt móður sinni og systur.
Á myndinni má sjá Michael Sandford ásamt móður sinni og systur. Vísir/AFP
Bretinn Michael Sandford var í dag dæmdur í rúmlega eins árs fangelsi fyrir að hafa ætlað sér að myrða Donald Trump á kosningafundi í Las Vegas fyrr á árinu. Dómurinn var mildari en ella vegna andlegra veikinda mannsins. BBC greinir frá.

Hann var sakaður um að hafa reynt að grípa í byssu lögreglumanns á kosningafundinum með því markmiði að skjóta frambjóðandann.

Í réttarhöldum yfir Sandford héldu verjendur hans því fram að hann væri haldinn alvarlegri þráhyggju og kvíða auk þess að vera á einhverfurófi. Sandford brotnaði niður í réttarsal og sagðist sjá eftir öllu saman.

Að sögn leyniþjónustunnar var Sandford heimilislaus og bjó hann í Bandaríkjunum án gildrar vegabréfsáritunar. Árásin hefði verið nokkuð vel skipulögð en Sandford hefði meðal annars æft sig í að skjóta af byssu daginn fyrir árásina. Hann hafi ætlað að deyja í árásinni.

Þegar dómarinn kvað upp úrskurð sinn sagðist hann ekki halda að Sandford væri vondur einstaklingur, heldur væri hann hreinlega veikur og þyrfti viðeigandi læknisúrræði.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×