Erlent

Skandall í sænsku jólapartý: Framkvæmdastjóri greip í rass og biðst afsökunar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Seinni hluta kvölds var dregið í happdrætti og þar var í vinning að fá að dansa við háttsettan mann innan fyrirtækisins.
Seinni hluta kvölds var dregið í happdrætti og þar var í vinning að fá að dansa við háttsettan mann innan fyrirtækisins. Visir/Getty
Árlegt jólateiti orkufyrirtækisins EON fór ekki áfallalaust fram í síðustu viku. Veislan var haldin hátíðleg í Malmö þar sem hvergi var til sparað í mat og drykk. Seinni hluta kvölds var dregið í happdrætti og þar var í vinning að fá að dansa við háttsettan mann innan fyrirtækisins.

„Þetta var bara eins og venjulegt jólaboð framan af kvöldi með jólamat, bjór og víni. Svo var þetta hálfgerð sýning seinni hlutann,“ segir ónafngreindur veislugestur við Aftonbladet. Hluti af því var umrætt happdrætti.

Sú „heppna“ í lottóinu fór upp á svið og dansaði við hinn 48 ára gamla Lars Lagerkvist. Skömmu síðar mátti, samkvæmt viðmælendum Aftonbladet sem voru í veislunni, heyra saumnál detta þegar Lagerkvist greip þétt um rass konunnar og áreitti hana þannig kynferðislega. Allir urðu vitni að augnablikinu sem varð neyðarlegt að sögn veislugests.

Baðst afsökunar í tölvupósti

Lagerkvist, sem mun að óbreyttu taka við stöðu annars framkvæmdastjóra EON um áramótin, sendi starfsmönnum EON töluvpóst í gær, mánudag, þar sem hann baðst afsökunar á uppákomunni.

„Síðastliðinn fimmtudag gerðist nokkuð leiðinlegt í árlegu jólaboði okkar. Ég var alltof ágengur í dansi með samstarfsmanni á sviðinu, eitthvað sem ég vil biðjast afsökunar á,“ sagði í póstinum.

Aftonbladet reyndi að ná tali af Lagerkvist en fékk ekki. Þess í stað svaraði mannauðsstjóri EON fyrirspurn blaðsins. Þar kom fram að 700 manns hefðu verið í veislunni og að Lagerkvist hefði talið að dansinn ætti að vera fyndinn. Þá sagði mannauðsstjórinn sömuleiðis aðspurð að vel væri hugsað um konuna sem varð fyrir áreitninni. Þá ætti hún von á að Lagerkvist myndi biðja starfsfólk afsökunar í persónu, ekki aðeins í tölvupósti.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×