Erlent

Telja árangursríkara að útrýma kvíða og þunglyndi heldur en fátækt til að auka hamingju fólks

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Að mati rannsakenda æri árangursríkara fyrir stjórnmálamenn, ef þeir vilja bæta líf kjósenda sinna, að verja meira fé í að bæta geðheilbrigði.
Að mati rannsakenda æri árangursríkara fyrir stjórnmálamenn, ef þeir vilja bæta líf kjósenda sinna, að verja meira fé í að bæta geðheilbrigði. vísir/getty
Niðurstöður tímamótarannsóknar sem gerð var við háskólann London School of Economics sýna að hægt væri að lina þjáningar fólks um tuttugu prósent ef kvíða og þunglyndi væri útrýmt. Ef fátækt væri útrýmt myndu þjáningar fólks hins vegar minnka um fimm prósent ef marka má niðurstöður rannsóknarinnar.

Það væri því árangursríkara fyrir stjórnmálamenn, ef þeir vilja bæta líf kjósenda sinna, að verja meira fé í að bæta geðheilbrigði að mati Richard Layard sem fór fyrir rannsókninni.

Layard er hagfræðingur og hefur meðal annars unnið sem ráðgjafi fyrir fyrrverandi forsætisráðherra Verkamannaflokksins, þá Tony Blair og Gordon Brown. Í umfjöllun Guardian um rannsóknina er haft eftir Layard að á síðustu 50 árum hafi hamingja fólks ekki aukist að meðaltali þrátt fyrir að meðallaun hafi meira en tvöfaldast.

Að mati rannsakendanna myndi það borga sig fyrir stjórnvöld að veita meira fé í geðheilbrigðismál þar sem atvinnuleysi myndi minnka, fleiri myndu þar af leiðandi borga skatt og færri myndu þurfa á bráðaþjónustu í heilbrigðiskerfinu að halda.

„Að takast á við þunglyndi og kvíða væri fjórum sinnum áhrifaríkara en að takast á við fátækt. Það myndi líka borga sig,“ segir Layard.

Í skýrslu rannsakenda segir að skólakerfið verði að fara að einblína meira á það að hlúa að geðheilbrigði og andlegri líðan.

„Niðurstöður rannsóknarinnar krefjast þess að ríkið hugsi hlutverk sitt upp á nýtt. Það á ekki að vinna að því að skapa auð heldur hamingju. Í fortíðinni hafa stjórnvöld tekist á við fátækt, atvinnuleysi, menntun og líkamlega heilsu. En í dag er jafn mikilvægt að takast á við heimilisofbeldi, alkóhólisma, þunglyndi og kvíða, ungmenni sem einangra sig félagslega og margt annað. Aðaláherslan ætti að vera á þessi málefni.“

Nánar má lesa um rannsóknina á vef Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×