Innlent

Samningar samþykktir en grasrótin óánægð

Þorgeir Helgason skrifar
Kjarasamningur grunnskólakennara var undirritaður í húsi ríkissáttasemjara þann 29. nóvember.
Kjarasamningur grunnskólakennara var undirritaður í húsi ríkissáttasemjara þann 29. nóvember. Vísir/Stefán
„Ég er svekkt yfir því að samningurinn hafi verið samþykktur. Mér finnst ekki hafa verið hlustað á háværar raddir kennara,“ segir Sigrún Björk Cortes, kennari við Melaskóla í Reykjavík.

Naumur meirihluti félagsmanna í Félagi grunnskólakennara samþykkti nýgerðan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga í atkvæðagreiðslu sem lauk í gær. Um það bil 55 prósent samþykktu samninginn en um 43 prósent höfnuðu honum. Mikil þátttaka var í kosningunni og tók um 91 prósent félagsmanna afstöðu til samningsins.

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara. Fréttablaðið/Stefán
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, segir niðurstöðuna ekki hafa komið sérstaklega á óvart. „Það var mjög ánægjulegt að sjá hve mikil kosningaþátttakan var. Við í Félagi grunnskólakennara ásamt trúnaðarmönnum grunnskólakennara hvöttum félagsmenn eindregið til þess að taka afstöðu. Okkur þótti mikilvægt að fá góða þátttöku til þess að styrkja niðurstöðuna, hver sem hún hefði orðið,“ segir Ólafur.

Félag grunnskólakennara og Samband íslenskra sveitarfélaga skrifaði undir samninginn þann 29. nóvember. Samningurinn var sá þriðji sem borinn var á borð kennara á árinu. Fyrstu tveimur samningunum höfnuðu kennarar.

„Veruleg launahækkun var aðalkrafa kennara. Hana sé ég ekki í þessum tæpu ellefu prósentum sem okkur eru boðin í þessum samningi,“ segir Sigrún. Hún segir það segja ákveðna sögu að kennarar hafi tvisvar á árinu hafnað samningum frá sömu samninganefnd. „Samninganefndinni hefur ekki orðið nægilega mikið ágengt og alls ekki með þessum þriðja samningi sem er að mínu mati ákveðin útfærsla á hinum tveimur. Hugsanlega er þessi samninganefnd orðin þreytt og kannski er kominn tími á nýtt blóð,“ segir Sigrún.

Háværar raddir innan grasrótar kennara hafa kallað eftir afsögn forystu kennara. Aðspurður hvort að komi til greina segir Ólafur að ekki hafi verið tekin ákvörðun um það. „Við þurfum auðvitað alltaf að skoða okkar stöðu. Tveir kjarasamningar voru felldir hjá okkur en sá þriðji var samþykktur þannig að við þurfum að meta hvernig málin liggja. Engin ákvörðun hefur verið tekin um framhaldið en við munum funda síðar í vikunni,“ segir Ólafur.

Kjaradeila kennara varð til þess að rúmlega hundrað grunnskólakennarar sögðu upp störfum. Ólafur segist ekki vita hvort samþykkt samningsins verði til þess að kennarar dragi til baka uppsagnir sínar en hann vonast til þess. „Hvort fólk sem hefur sagt upp dregur uppsagnirnar til baka eða ekki, þá er óánægjan enn til staðar,“ segir Sigrún.

Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum er nú eina aðildarfélag Kennarasambands Íslands sem er án kjarasamnings en það hefur verið í þeirri stöðu síðan 1. nóvember 2015.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×