Innlent

Reyna aftur að leggja niður Ríkis­út­varpið ohf.

Árni Sæberg skrifar
Óli Björn Kárason vill leggja niður Ríkisútvarpið ohf.
Óli Björn Kárason vill leggja niður Ríkisútvarpið ohf. Vísir/Vilhelm

Hópur þingmanna Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á rekstrarumhverfi fjölmiðla. Verði frumvarpið samþykkt verður Ríkisútvarpið ohf. lagt niður og Ríkisútvarpið gert að ríkisstofnun. Frumvarpið var fyrst lagt fram á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu.

Flutningsmaður frumvarpsins er Óli Björn Kárason og meðflutningsmenn eru Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Jón Gunnarsson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason, Teitur Björn Einarsson og Birgir Þórarinsson.

Óli Björn sagði í samtali við Vísi þegar frumvarpið var fyrst lagt fram að með því vildu þingmennirnir jafna stöðuna á fjölmiðlamarkaði, draga úr forréttindum ríkisfjölmiðils og styrkja stöðu sjálfstæðra fjölmiðla.

Nái frumvarpið um ýmsar breytingar á lögum fram að ganga verður formbreyting á rekstri Ríkisútvarpsins og skattalegar ívilnanir fyrir sjálfstæða fjölmiðla innleiddar til að styrkja stöðu þeirra. Þá verða skorður settar við samkeppnisrekstri Ríkisútvarpsins.

„Við þurfum að viðurkenna að það voru mistök að gera Ríkisútvarpið að opinberu hlutafélagi. Þá ætti öllum að vera ljóst að fyrirkomulag fjármögnunar með álagningu útvarpsgjalds er óeðlileg. Klippt hefur verið á milli fjármögnunar og þróunar rekstrarkostnaðar vegna lögbundinna verkefna,“ sagði Óli Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×