Enski boltinn

Llorente: Mikilvægt að Gylfi verði ekki seldur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fernando Llorente fagnar fyrra marki sínu með besta manni Swansea, Gylfa Þór Sigrðssyni.
Fernando Llorente fagnar fyrra marki sínu með besta manni Swansea, Gylfa Þór Sigrðssyni.
Fernando Llorente, framherji Swansea, hefur fulla trú á því að velska liðið geti klifrað upp töfluna í ensku úrvalsdeildinni og bjargað sæti sínu en ef það á að gerast má félagið ekki selja Gylfa Þór Sigurðsson, að hans sögn.

Gylfi er nánast eins manns her hjá Swansea þessar vikurnar en íslenski landsliðsmaðurinn er búinn að skora fimm mörk og leggja upp önnur fimm fyrir Swansea-liðið í fyrstu fimmtán umferðunum.

Sjá einnig:Gylfi Þór er leikstjórinn á Liberty-leikvanginum

Gylfi skoraði eitt og lagði upp annað fyrir Llorente (sem skoraði tvö) í mikilvægum 3-0 sigri á Sunderland í fallbaráttunni um helgina. Swansea er nú í 18. sæti með tólf stig, aðeins einu stigi frá öruggu sæti.

„Gylfi er ótrúlegur leikmaður í hæsta gæðaflokki,“ segir Llorente um íslenska landsliðsmanninn en Spánverjinn er sjálfur að vakna til lífsins þökk sé stoðsendingum Gylfa. Hann er nú búinn að skora fimm mörk í tólf leikjum.

„Það er mikilvægt fyrir liðið að hann verði hér áfram. Ég er mjög ánægður fyrir hans hönd að hann er að spila svona vel.“

„Við verðum að nýta framlag hans til fullnustu. Hann býr til tækifæri fyrir mig og ég ný þess að spila með honum,“ segir Fernando Llorente.


Tengdar fréttir

Leikstjórinn á Liberty-leikvanginum

Gylfi Þór Sigurðsson er maðurinn á bak við tvo heimasigra Swansea í röð, lífsnauðsynlega sigra í fallbaráttunni. Gylfi var með mark og stoðsendingu í 3-0 sigri á Sunderland. Hann hefur blómstrað eftir að bandaríski knattspyrnustjórinn Bob Bradley færði hann framar á völlinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×