Innlent

Þúsundir neituðu sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar á síðasta ári

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kostnaður kom í veg fyrir að um átta þúsund manns leituðu sér aðstoðar læknis.
Kostnaður kom í veg fyrir að um átta þúsund manns leituðu sér aðstoðar læknis. Vísir/Vilhelm
Fjórar af hverjum hundrað konum og tveir af hverjum hundrað körlum neituðu sér um þjónustu læknis eða sérfræðings árið 2015 vegna kostnaðar, eða samtals tæplega átta þúsund manns.

Þetta kemur fram í Hagtíðindum Hagstofu Íslands. Þar kemur einnig fram að hlutfallslega margir á Íslandi neita sér um læknisþjónustu vegna kostnaðar miðað við önnur Evrópuríki sé tekið mið af nýjustu samanburðartölum sem eru frá árinu 2014. Þá fór ríflega þrjú prósent Íslendinga ekki til læknis vegna kostnaðar sem var sjötta hæsta hlutfallið í Evrópu.

Kostnaður er meiri fyrirstaða fyrir tekjulægri hópana en þá tekjuhærri, en sex prósent fólks í tekjulægsta fimmtungnum fór ekki til læknis vegna kostnaðar á móti rúmlega eins prósent fólks í efsta tekjufimmtungi.

Einnig er áætlað að um 25 þúsund manns, eða um tíu prósent fullorðinna á Íslandi, hafi árið 2015 einhvern tíma ekki farið til tannlæknis vegna kostnaðar þegar þau þurftu á því að halda, um ellefu þúsund karlar og fjórtán þúsund konur.

Á heildina litið er hlutfall þeirra hátt á Íslandi sem ekki fóru til tannlæknis þrátt fyrir að þurfa þess sé horft til Evrópu. Hlutfall kvenna sem ekki fór til tannlæknis vegna kostnaðar reyndist vera það fjórða hæsta í Evrópu og hlutfallið meðal karla það fimmta hæsta.

Mynd/Hagstofa Íslands



Fleiri fréttir

Sjá meira


×