Innlent

Áfram hlýindi á aðventunni

Snærós Sindradóttir skrifar
Þessi mynd var tekin í Bolungarvík, í gær, þar sem grasið er grænt og himininn heiður.
Þessi mynd var tekin í Bolungarvík, í gær, þar sem grasið er grænt og himininn heiður. Mynd/Pálmi Gestsson
„Þessi vika verður ágætlega mild. Hún verður meira og minna vel í mildari kantinum en töluverður lægðagangur. Það er alltaf stutt í suðvestan- og vestanátt með kaldara lofti þannig að það er viðbúið að það nái inn á köflum eitthvað svalara loft með einhverjum slydduéljum af og til,“ segir Óli Þór Árnason, vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Fádæma hlýindi hafa verið um land allt í desembermánuði, svo mjög að sumum blöskrar hve lítt jólalegt er um að litast á landinu nú þegar þriðji í aðventu hefur gengið í garð. Blíðan leikur þó ekki bara við íbúa á suðvesturhorni landsins.

„Þetta er meira og minna um allt land. Það er í raun á köflum betra veður fyrir norðan og austan þegar þessar suðlægu áttir eru því þær eru yfirleitt þurrar á Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum líka. En þegar hann snýr sér eru þeir fljótir að fá snjó.“

Í dag spáir sjö stiga hita og sól á Egilsstöðum og í kringum tvær til sex gráður í þéttbýli um land allt. Úrkoma verður þó nokkur í vikunni en áfram verða allar tölur rauðar hringinn í kringum landið. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×