Fótbolti

Tevez fær nú 70 milljónir í laun á viku | Launahæsti fótboltamaður heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez hefur góða ástæðu til þess að brosa.
Carlos Tevez hefur góða ástæðu til þess að brosa. Vísir/Getty
Argentínumaðurinn Carlos Tevez hefur gengið frá samningi við kínverska félagið Shanghai Shenhua og er því nýjasta knattspyrnustjarnan sem eltir peningana til Kína.

Shanghai Shenhua kaupir þennan 32 ára framherja frá argentínska félaginu Boca Juniors og heimildir erlendra fjölmiðla er að félagið hafi borgað í kringum 70 milljónir punda fyrir hann eða rétt tæpa tíu milljarða íslenskra króna.

Þjálfari Shanghai Shenhua er Gus Poyet, fyrrum leikmaður Chelsea og Tottenham og áður stjóri Brighton sem margir kannast við úr enska boltanum.

Carlos Tevez sjálfur spilaði í sjö ár í ensku úrvalsdeildinni og varð enskur meistari með báðum Manchester-liðunum. Hann vann Meistaradeildina með Manchester United. Tevez fór til Juventus 2013 og vann ítalska titilinn tvisvar áður en hann fór til Argentínu.

Risasamningur Tevez mun gefa honum 500 þúsund pund í vikulaun eða 70 milljónir í vasann í hverri viku. Þetta er fjórtán milljónum meira en Brasilíumaðurinn Oscar sem samdi við Shanghai SIPG á dögunum. Tevez er þar með orðinn launahæsti fótboltamaður heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×