Enski boltinn

Brottför Zlatans gerði frönsku deildina samkeppnishæfa á ný

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Zlatan er kominn með 16 mörk í öllum keppnum í vetur.
Zlatan er kominn með 16 mörk í öllum keppnum í vetur. vísir/getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hrósaði Zlatan Ibrahimovic, framherja liðsins á blaðamannafundi fyrir leik liðsins gegn Sunderland.

Sagði hann brottför sænska framherjans frá PSG til Manchester United hafa gert það að verkum að franska deildin sé samkeppnishæf á ný.

Með Zlatan innanborðs vann PSG flesta titla sem í boði voru en deildin er töluvert jafnari á þessu tímabili.

„Franskir fótboltaaðdáendur hljóta að vera fegnir að hann ákvað að söðla um. Þegar hann var í deildinni var þetta engin keppni en nú er loksins spenna. Þegar hann var hjá PSG unnu þeir alla titlana ár eftir ár,“ sagði Mourinho og hélt áfram:

„Keppnin er orðin samkeppnishæf á ný, ég hef gaman að því að fylgjast með mönnum eins og Mario Balotelli hjá Nice og Leonardo Jardim hjá Monaco.“

Zlatan verður væntanlega í eldlínunni með Manchester United um jólatímann en þetta er fyrsta tímabil hans á Englandi.

„Hann hefur verið ótrúlegur síðan hann kom til liðsins. Það eru ekki bara mörkin, hann kemur af eldmóði á allar æfingar. Ég þjálfaði hann fyrir átta árum og mér þykir hann betri í dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×