Enski boltinn

Stóri Sam: Forgangsatriði að bæta varnarleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lið undir stjórn Stóra Sams hafa aldrei fallið.
Lið undir stjórn Stóra Sams hafa aldrei fallið. vísir/getty
Sam Allardyce segir það sé forgangsatriði hjá honum að stoppa í götin í varnarleik Crystal Palace sem hefur verið slakur á tímabilinu.

Allardyce var ráðinn knattspyrnustjóri Palace í gær, aðeins degi eftir að félagið rak Alan Pardew.

Palace er í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 15 stig, aðeins stigi frá fallsæti. Liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu 11 deildarleikjum sínum.

„Ég stend frammi fyrir erfiðu verkefni að koma í veg fyrir að fáum á okkur mörk,“ sagði Allardyce á sínum fyrsta blaðamannafundi sem stjóri Palace.

Allardyce hrósaði sóknarleik Palace en aðeins efstu fimm lið í ensku úrvalsdeildinni hafa skorað meira í vetur. Palace hefur hins vegar fengið á sig 32 mörk, eða næstum því tvö mörk að meðaltali í leik.

„Við verðum að hætta að fá á okkur mörk og tryggja að mörkin sem við skorum dugi til sigurs. Þetta hljómar einfalt en er það ekki og við þurfum að breyta þessu,“ sagði Allardyce sem tók við Sunderland í svipaðri stöðu á síðasta tímabili og tókst að bjarga liðinu frá falli.

Allardyce vill styrkja leikmannahóp Palace í janúarglugganum. Hann segir þó að það skipti höfuðmáli að halda lykilmönnum liðsins.

„Við þurfum að passa leikmennina sem við erum með og að sögusagnir um áhuga liða á þeim hafi ekki áhrif á þá. Þú hefur áhyggjur af þessu sem stjóri því svona sögusagnir geta haft truflandi áhrif á leikmenn,“ sagði Allardyce sem stýrir Palace í fyrsta sinn á öðrum degi jóla þegar liðið sækir Watford heim.


Tengdar fréttir

Pardew þriðja fórnarlamb Benteke-bölvunarinnar

Christian Benteke hefur fyrir löngu sannað sig í ensku úrvalsdeildinni en þessi 26 ára gamli belgíski framherji hefur skorað 59 mörk í 133 úrvalsdeildarleikjum fyrir Crystal Palace, Liverpool og Aston Villa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×