Enski boltinn

Cahill: Viljum bæta félagsmetið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cahill hefur verið fyrirliði Chelsea í öllum 11 sigurleikjunum í röð.
Cahill hefur verið fyrirliði Chelsea í öllum 11 sigurleikjunum í röð. vísir/getty
Gary Cahill vill sjá Chelsea bæta félagsmetið yfir flesta sigra í röð þegar liðið tekur á móti Bournemouth á öðrum degi jóla.

Chelsea hefur unnið 11 leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni og er með sex stiga forskot á toppnum. Með sigri á Bournemouth á mánudaginn bætir Chelsea félagsmetið yfir flesta sigurleiki í röð í efstu deild.

„Þetta er ekki eitthvað sem við ræðum daglega um. Raunar hef ég ekki heyrt neinn tala um þetta. En við erum meðvitaðir um þetta. Að sjálfsögðu vill maður vera hluti af liði sem slær met,“ sagði Cahill í samtali við Sky Sports.

„Við erum meðvitaðir um þetta og möguleikinn á að bæta metið ætti að hvetja okkur til enn frekari dáða. Við viljum fá þrjú stig og bæta metið,“ bætti enski landsliðsmaðurinn við.

Cahill segir að lífið núna sé talsvert auðveldara en á sama tíma í fyrra þegar Chelsea var í fallbaráttu.

„Það eru allir ánægðir og það segja allir að það sé auðveldara að spila í sigurliði. Við erum á frábæru skriði og vonumst til að það haldi áfram. Við erum fullir sjálfstrausts,“ sagði Cahill.


Tengdar fréttir

Litli maðurinn sem gerir stóra hluti

Franski miðjumaðurinn N'Golo Kanté er á góðri leið með að komast í fámennan hóp leikmanna sem hafa unnið ensku úrvalsdeildina tvö ár í röð með tveimur mismunandi félögum. Það er magnað að bera saman árangur liðanna Chelsea og Leicester með og án Kanté.

Tveir af þeim markahæstu í banni á annan í jólum

Íslensku landsliðsmennirnir Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson verða væntanlega báðir með sínum liðum á öðrum degi jóla en sumir leikmenn deildarinnar ættu að geta notið jólanna aðeins betur en þeir sem spila 26. desember.

Oscar búinn að tryggja sér Kínagullið

Oscar er orðinn leikmaður kínverska liðsins Shanghai SIPG en félagið hefur staðfest að það hafi náð samkomulagi við Chelsea um kaup á leikmanninum.

Conte gaf leikmönnum Chelsea frí

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, vildi gefa sínum leikmönnum tækifæri til að hlaða aðeins batteríin fyrir alla leikina yfir hátíðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×