Enski boltinn

Sky Sports: Stóri Sam tekur við Crystal Palace

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sam Allardyce verður næsti knattspyrnustjóri Crystal Palace. Sky Sports greinir frá.

Samkvæmt heimildum Sky Sports skrifaði Allardyce undir tveggja og hálfs árs samning við Palace sem rak Alan Pardew úr starfi knattspyrnustjóra í gær.

Allardyce mætti á æfingasvæði Palace í dag og ræddi í þrjá klukkutíma við Steve Parish, stjórnarformann félagsins. Þær viðræður virðast hafa borið árangur.

Allardyce hefur verið án starfs síðan hann hætti sem þjálfari enska landsliðsins í september, eftir aðeins 67 daga í starfi. Allardyce stýrði Englandi bara í einum leik, 0-1 sigri á Slóvakíu.

Hinn 62 ára gamli Allardyce er gríðarlega reyndur en hann hefur áður stýrt Bolton Wanderers, Blackburn Rovers, Newcastle United, West Ham United og Sunderland í ensku úrvalsdeildinni.

Palace hefur gengið bölvanlega á tímabilinu og situr í 17. sæti deildarinnar með 15 stig, aðeins einu stigi frá fallsæti.

Næsti leikur Palace er gegn Watford í hádeginu á öðrum degi jóla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×