Enski boltinn

Tveir af þeim markahæstu í banni á annan í jólum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
N'Golo Kante og Diego Costa verða báðir í stúkunni á mánudaginn.
N'Golo Kante og Diego Costa verða báðir í stúkunni á mánudaginn. Vísir/Getty
Íslensku landsliðsmennirnir Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson verða væntanlega báðir með sínum liðum á öðrum degi jóla en sumir leikmenn deildarinnar ættu að geta notið jólanna aðeins betur en þeir sem spila 26. desember.

Umræddir leikmenn fagna reyndar ekki þessu fríi þar sem þeir eru í leikbanni og vildu því eflaust vera til staðar fyrir sín lið.

Markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar, Diego Costa hjá Chelsea, og sá fjórði markahæsti, Sergio Agüero hjá Manchester City, bæta ekki við mörkum 26. desember því þeir taka báðir úr leikbann.

Það reynir mikið á Chelsea-liðið í leik liðsins á móti Bournemouth því auk þess að vera án Diego Costa er liðið án miðjumannsins N'Golo Kante sem hefur skipt sköpum fyrir liðið á þessu tímabili en hann varð enskur meistari með Leicester City á síðustu leiktíð.

Chelsea hefur unnið ellefu leiki í röð, Costa hefur skorað nokkur sigurmörk og Kante á mikinn þátt í því að liðið hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í þessum ellefu sigurleikjum.

Englandsmeistarar Leicester City eru líka í erfiðum málum enda lykilmennirnir Jamie Vardy, Christian Fuchs, og Robert Huth allir í banni í leiknum á móti Everton.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir menn sem taka út leikbann á öðrum degi jóla.

Burnley: Matthew Lowton

Chelsea: Diego Costa og N'Golo Kante

Leicester: Jamie Vardy, Christian Fuchs, og Robert Huth

Manchester City: Sergio Aguero

Stoke City: Marko Arnautovic

West Ham: Pedro Obiang




Fleiri fréttir

Sjá meira


×