Enski boltinn

Man. United kannar áhuga stuðningsmanna sinna fyrir breytingum á Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Enska úrvalsdeildarliðið Manchester United skoðar nú möguleikann á því að breyta Old Trafford til að útbúa stað eða staði á leikvanginum þar sem áhorfendur hafi ekki sæti heldur standi eins og tíðkaðist hér áður fyrr.

United og fleiri ensk úrvalsdeildarlið eru byrjuð að tala saman um að gefa stuðningsmönnum sínum aftur tækifæri á að kynnast þeirri sérstöku stemmningu sem fylgir því að standa á fótboltaleikjum.

Stæði hafa verið bönnuð á leikjum í efstu tveimur deildunum í Englandi eftir Hillsborough-harmleikinn árið 1989 þar sem 96 stuðningsmenn Liverpool krömdust til bana.

Svokölluð örugg stæði hafa verið tekin upp hjá bæði Celtic sem og á leikjum í þýsku deildinni.

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa tekið vel í það að létta aðeins á reglunum en helsti gróðinn af slíkum stæðum er að magna upp betri stemmningu á leikjum liðanna.

Sum stór félög, eins og til dæmis Everton, eru á móti slíkri breytingu og það þyrfti líka breytingu á landslögum til þess að ná þessu í gegn. Það mun því taka tíma og þarfnast ennfremur samþykki stjórnmálamannanna til að ná þessum breytingum í gegn.

Manchester United ákvað að kanna jarðveginn hjá sínu stuðningsfólki og sendi þess vegna 20 spurninga lista til ársmiðahafa sinna. Stuðningsmennirnir voru meðal annars spurðir af því á hvaða þremur stöðum á leikvanginum þeir vildu helst að kæmi stæði.

Það er ekki vitað að félag í ensku úrvalsdeildinni hafi sent stuðningsmönnum sínum áður slíkan spurningalista.

Það hafa ekki verið nein stæði á Old Trafford síðan árið 1992 en það ár var Stretford End stúkan rifinn.

Old Trafford er stærsti leikvangurinn hjá félagi í ensku úrvalsdeildinni en hann tekur 75.635 manns í sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×