Enski boltinn

Eiður Smári er eitt mesta jólabarnið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hó, hó, hó.
Hó, hó, hó. vísir/afp
Eiður Smári Guðjohnsen, fyrrverandi leikmaður Chelsea, er einn þeirra leikmanna sem hefur skorað flest mörk á öðrum degi jóla í ensku úrvalsdeildinni en 26. desember fer ávallt fram umferð í deildinni.

Eiður Smári spilaði sex tímabil í ensku úrvalsdeildinni með Chelsea. Hann spilaði í heildina 210 leiki í úrvalsdeildinni og skorað 55 mörk auk þess sem hann lagði upp önnur 42. Þrjú þessara marka skoraði hann á öðrum degi jóla.

Sjá einnig:Eiður Smári opnar sig: „Hálft ár þar sem ég ældi vegna svima og vissi ekki hvað var að gerast“

Hann byrjaði sín fyrstu jól í úrvalsdeildinni með látum en þá skoraði Eiður Smári tvö mörk í 2-2 jafntefli gegn Ipswich annan í jólum árið 2000. Hermann Hreiðarsson stóð vaktina í vörn Ipswich í þeim leik.

Eiður skoraði einu sinni til viðbótar á öðrum degi jóla í úrvalsdeildinni en það var í 4-2 tapleik gegn Charlton árið 2003. Mörkin hans dugðu því miður ekki til að skila Chelsea sigri í jólapakkann í þessi tvö skipti.

Íslenski landsliðsmaðurinn er einn af 24 leikmönnum sem hafa skorað þrjú mörk á öðrum degi jóla í ensku úrvalsdeildinni. Hann er í hópi með leikmönnum á borð við Gary McAllister, Ole Gunnar Solskjær, Kevin Phillips, Tim Cahill, Robin van Persie og Diego Costa.

Ellefu leikmenn eru í 10.-21. sæti á listanum með fjögur mörk þann 26. desember en efstur á listanum er Robbie Fowler, fyrrverandi framherji Liverpool. Það mikla jólabarn skoraði níu mörk á öðrum degi jóla á sínum ferli. Alan Shearer og Robbie Keane koma þar næstir og Thierry Henry, fyrrverandi framherji Arsenal, er einn í fjórða sætinu.

Markahæstu menn á öðrum degi jóla í úrvalsdeildinni:

1. Robbie Fowler - 9

2.-3. Alan Shearer - 8

2.-3. Robbie Keane - 8

4. Thierry Henry - 7

5. Jermaine Defoe - 6

6.-9. Steven Gerrard - 5

6.-9. Andy Cole - 5

6.-9. Frank Lampard - 5

6.-9. Dimitar Berbatov - 5


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×