Enski boltinn

„Ef Pogba kostar 100 milljónir kostar Aubameyang 150 því hann breytir leikjum“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Á Pierre-Emerick Aubameyang að vera dýrari en Pogba?
Á Pierre-Emerick Aubameyang að vera dýrari en Pogba? vísir/getty
Pierre-Emerick Aubameyang, framherji þýska 1. deildar liðsins Dortmund, er töluvert verðmætari en Paul Pogba, dýrasti fótboltamaður heims, að mati Lothar Matthäus, fyrrverandi heimsmeistara með þýska landsliðinu og einum besta varnarmanni sögunnar.

Pogba varð dýrasti fótboltamaður sögunnar þegar hann sneri aftur á Old Trafford í sumar frá Juventus en Aubameyang er einn eftirsóttasti leikmaður heims í dag vegna frammistöðu sinnar með Dortmund undanfarin misseri.

Gabonski framherjinn er búinn að skora 20 mörk í 22 leikjum í öllum keppnum fyrir Dortmund á þessari leiktíð en hann skoraði 39 mörk í 49 leikjum og lagði upp önnur tólf á síðasta tímabili.

Paul Pogba var frábær með Juventus í ítölsku A-deildinni á síðustu leiktíð og varð Ítalíumeistari fjórða árið í röð og þá átti hann stóran þátt í því að Juventus komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrir hálfu öðru ári síðan. Hann er þó ekki alveg að sýna það sem menn vonuðust eftir hjá Manchester United.

Franski landsliðsmaðurinn er búinn að spila 27 leiki fyrir United síðan hann gekk aftur í raðir enska liðsins og skora þrjú mörk.

„Ef leikmaður eins og Pogba kostar 100 milljónir evra ætti Dortmund að fá 150 milljónir fyrir Aubameyang. Það er leikmaður sem breytir leikjum en Pogba gerir það ekki,“ segir Matthäus í pistli sínum í þýska blaðinu Bild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×