Enski boltinn

Mourinho í átta eða tíu ár í viðbót hjá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United. Vísir/Getty
Enskir fjölmiðlar slá því upp í morgun að Jose Mourinho verði væntanlega knattspyrnustjóri Manchester United út þennan áratug og gott betur.

Bæði Daily Mirror og The Daily Star eru með löng framtíðarplön United með Mourinho á forsíðum sínum í dag. Daily Mirror skrifar um að United vilji Mourinho verði á Old Trafford næstu tíu árin en The Daily Star segir átta ár.

Manchester United á annars flestar fyrirsaganirnir þennan miðvikudagsmorgun. Liðið fékk á sig mikla gagnrýni í nóvember en hefur núna unnið fjóra leiki í röð í öllum keppnum og allt lítur miklu betur út.

The Sun slær því aftur á móti upp að Manchester United ætli að kaupa franska framherjann Antoine Griezmann frá Atletico Madrid fyrir 60 milljónir punda.

Manchester United er þrettán stigum á eftir toppliði Chelsea og fjórum stigum frá sæti í Meistaradeildinni en liðið hefur unnið þrjá deildarleiki í röð og ekki tapað í ensku úrvalsdeildinni síðan 23. október.

United steinlá þá 4-0 á móti Chelsea á Stamford Bridge en það er eina tapið í síðustu tólf deildarleikjum. Liðið gerði reyndar sex jafntefli í átta deildarleikjum frá 2. október til 4. desember en hefur loksins náð að klára leiki sína að undanförnu.

Jose Mourinho tók við liði Manchester United í haust og hefur ítrekað talað um að hann þurfi tíma og nokkra félagsskiptaglugga til þess að búa til gott lið. Samkvæmt fréttum morgundagsins þá lítur út fyrir að hann fái þann tíma.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af forsíðum ensku blaðanna í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×