Enski boltinn

Jamie Vardy í löngu jólafrí í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Vardy.
Jamie Vardy. Vísir/Getty
Enski framherjinn Jamie Vardy endar hið eftirminnilega ár 2016 upp í stúku en aganefnd enska knattspyrnusambandsins hefur ákveðið að rauða spjaldið hans frá helginni standi.

Jamie Vardy fékk beint rautt spjald fyrir að tækla Mame Diouf og það þótti flestum fáránlegur dómur en þeir sem ráða í þessum málum voru ekki tilbúnir að viðurkenna mistök dómarans Craig Pawson. Jamie Vardy áfrýjaði rauða spjaldinu en þeirri áfrýjun var hafnað.

Jamie Vardy fékk rauða spjaldið strax á 28. mínútu leiksins en þrátt fyrir að vera manni færri og lenda 2-0 undir tókst liðsfélögum hans í Leicester að jafna metin og tryggja sér stig.

Vardy fór í tveggja fóta tæklingu en vann boltann áður en hann kom aðeins við Mame Diouf. Þessi snerting var nóg til þess að dómarinn og aganefndin þótti báðum rautt spjald vera réttur dómur.

„Hann er að reyna að vinna boltann og hann tók boltann líka. Þetta var kannski gult spjald,“ sagði Claudio Ranieri, knattspyrnustjóri Leiecester.

Jamie Vardy fær því langt jólafrí í ár en hann missir af öllum þremur leikjum liðsins yfir hátíðirnar. Vardy verður ekki með á móti Everton, West Ham og Middlesbrough.

Hann má næst spila í bikarleik á móti Everton en sá leikur fer fram 7. janúar 2017.

Þetta var magnað ár hjá Jamie Vardy, sem var einn aðalmaðurinn á bak við óvæntan Englandsmeistaratitil Leicester City í vor og fékk síðan tækifæri með enska landsliðinu á EM í Frakklandi.

Jamie Vardy fær rauða spjaldið.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×