Fótbolti

Ragnar um neikvæðu hliðar fótboltans: „Í Svíþjóð og Danmörku var það mikilvægasta að laga hárið“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ragnar Sigurðsson, landsliðsmiðvörður í fótbolta, hefur ekki mikinn áhuga á fótbolta fyrir utan þegar hann er að spila. Það er margt sem fer í taugarnar á honum við íþróttina sem hann sjálfur hefur náð svo langt í.

Ragnar talar um neikvæðu hliðar fótboltans í myndinni Jökullinn logar sem er komin út á DVD. Myndband af því má sjá í spilaranum hér að ofan.

Sjá einnig:Eiður Smári opnar sig: „Hálft ár þar sem ég ældi vegna svima og vissi ekki hvað var að gerast“

„Ég verð stundum svolítið pirraður að horfa á fótbolta. Ég hef ekkert mikinn áhuga á því. Þegar lið kemst 1-0 yfir eru allir ógeðslega lengi að taka allar aukaspyrnur og sparka boltanum í burtu,“ segir Ragnar.

„Ef hitt liðið á aukaspyrnu og ég sparka í boltann þá á ég að fá gult spjald. Dómararnir fylgja eiginlega aldrei þessum reglum og það fer rosalega í taugarnar á mér.“

Hver er þetta, Raggi?vísir/getty
Aldrei séð þennan mann áður

Ragnar er nú á mála hjá Fulham á Englandi eftir nokkurra ára dvöl í Rússlandi. Þegar hann fór fyrst í atvinnumennsku spilaði hann með Gautaborg í Svíþjóð og eftir því stórliðinu FCK í Danmörku en menningin þar fór svolítið í taugarnar á honum.

„Í Svíþjóð og Danmörku var það mikilvægasta að laga hárið áður en þú fórst út á völl. Það eru svona hlutir sem fara í taugarnar á mér en aðallega þetta svindl og þegar verið er að tefja leikinn endalaust. Óíþróttamannsleg framkoma hefur verið að aukast í boltanum,“ segir Ragnar.

Miðvörðurinn gerir mjög lítið af því að horfa á fótbolta og veit ekki hverjar sumar af skærustu stjörnum íþróttarinnar eru. Fyrir leik Íslands og Króatíu fyrir þremur árum kom í ljós að hann vissi ekki hver Mario Mandzukic, framherji króatíska liðsins, væri.

„Ég hafði aldrei heyrt þetta nafn eða séð þennan mann áður. Ég get vel trúað því að ég sé að þykjast en helsta ástæðan fyrir því að ég man ekki nafnið á þessum gaurum er að ég horfi bara mjög sjaldan eða aldrei á fótbolta,“ segir Ragnar Sigurðsson.

Brot úr aukaefni myndarinnar Jökullinn logar má sjá hér að ofan. Jökullinn Logar er mynd Sölva Tryggvasonar um ferðalag strákanna okkar á EM í Frakklandi en hún er nú komin út á DVD með 120 mínútum af aukaefni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×