Enski boltinn

Fellaini sást í Mílanó í gær og enskir fjölmiðlar orða hann við ítölsk stórlið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marouane Fellaini hefur átt erfitt uppdráttar hjá United á leiktíðinni.
Marouane Fellaini hefur átt erfitt uppdráttar hjá United á leiktíðinni. Vísir/EPA
Marouane Fellaini, belgíski miðjumaðurinn hjá Manchester United, gæti verið á förum frá félaginu í janúarglugganum.

Fellaini er orðaður við ítalska stórliðið AC Milan í frétt í the Times í morgun. Daily Mail segir að bæði Mílanó-liðin vilji fá hann.

Blaðamaður the Times segir að Marouane Fellaini sé orðinn mjög pirraður yfir litlum spilatíma með aðalliði United og vilji nú endilega komast í burtu.

Fellaini á eftir átján mánuði af samningi sínum við Manchester United en hann hefur aðeins verið einu sinni í byrjunarliði Manchester United undanfarna tvo mánuði.

Málið fór á flug þegar Marouane Fellaini sást á flakki með tvíburabróður sínum Mansour í Mílanó í gær. Daily Mail sló því upp í framhaldinu að bæði AC Milan og Internazionale hefðu áhuga á kappanum.

Manchester United borgar Marouane Fellaini 120 þúsund pund í vikulaun, 17 milljónir íslenskar, og það eru ekki öll félög sem ráða við það að borga honum slík laun. AC og Inter eru hinsvegar tvö af þeim.

Manchester United vill ekki semja aftur við þennan 29 ára gamla leikmann sem kom frá Everton sumarið 2013. United gæti lánað hann en fyrsti kostur er örugglega að reyna að selja hann og ná einhverju til baka af þeim 27,5 milljónum punda, 3,9 milljarðar íslenskra króna,  sem félagið borgaði fyrir hann á sínum tíma.

Marouane Fellaini hefur spilað 17 leiki og í 925 mínútur í öllum keppnum með Manchester United á tímabilinu en hefur enn ekki átt þátt í marki. Fellaini hefur aftur á móti fengið sex gul spjöld.

Vísir/EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×