Enski boltinn

Upphitun fyrir leiki dagsins: Árinu lýkur með risaleik | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sjö leikir verða á boðsstólnum í ensku úrvalsdeildinni á síðasta degi ársins.

Athygli flestra beinist að síðdegisleiknum þar sem Liverpool og Manchester City mætast. Liðin eru í 2. og 3. sæti deildarinnar og aðeins einu stigi munar á þeim.

Bæði lið þurfa á sigri að halda, sérstaklega ef Chelsea vinnur Stoke City fyrr um daginn. Það má búast við áramótabombum á Anfield enda bæði lið afar sóknarsinnuð.

Chelsea er með sex stiga forskot á toppnum eftir 12 sigurleiki í röð. Ef Chelsea vinnur Stoke jafnar liðið met Arsenal frá 2002 yfir flesta sigurleiki í röð.

Manchester United, sem hefur verið á góðu skriði að undanförnu, tekur á móti Middlesbrough á Old Trafford. United hefur unnið fjóra leiki í röð á meðan Boro hefur tapað þremur af síðustu fjórum leikjum sínum.

Swansea City fær Bournemouth í heimsókn á Liberty völlinn. Þetta er fyrsti leikur Swansea eftir að bandaríski knattspyrnustjórinn Bob Bradley var rekinn.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar taka á móti Sunderland í gríðarlega mikilvægum leik í botnbaráttunni. Burnley hefur gengið afar vel á heimavelli í vetur og náð í 19 af 20 stigum sínum þar.

Englandsmeistarar Leicester City mæta West Ham United sem hefur unnið þrjá leiki í röð. Hamrarnir eru komnir upp í 11. sæti deildarinnar en Refirnir eru í því sextánda.

Þá sækir West Brom Southampton heim. Bæði lið töpuðu í síðustu umferð.

Leikir dagsins:

15:00 Man Utd - Middlesbrough (sýndur beint á Stöð 2 Sport HD)

15:00 Chelsea - Stoke

15:00 Swansea - Bournemouth

15:00 Burnley - Sunderland

15:00 Leicester - West Ham

15:00 Southampton - West Brom

17:30 Liverpool - Man City (sýndur beint á Stöð 2 Sport HD)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×