Viðskipti innlent

Bleiki fíllinn rauk út og hvarf eins og dögg fyrir sólu

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Hugleikur Dagsson hannaði flöskumiða Bleika fílsins.
Hugleikur Dagsson hannaði flöskumiða Bleika fílsins.
Áramótabjórinn Bleiki fíllinn stoppaði stutt við en síðustu flöskurnar seldust í Fríhöfninni í gær. Flöskurnar komu í hillurnar degi fyrr. Enn er þó hægt að finna hann á völdum börum og veitingahúsum.

„Við vildum forðast eins og unnt var að lenda ofan í jólabjóraflóðinu og því má segja að sölutíminn hafi verið knappur. Það virðist þó allt sleppa þar sem bjórinn er búinn hjá okkur og mér skilst að hann sé að klárast í Fríhöfninni,“ segir Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá Borg Brugghúsi.

Bjórinn er fyrsti samstarfsbjór íslenskra brugghúsa en Gæðingur í Skagafirði og Borg Brugghús í Reykjavík brugguðu bjórinn saman. Hann er í belgískum IPA-stíl en rauðrófur búa til bleika litinn. Hugleikur Dagsson teiknaði myndina sem skreytir umbúðirnar.

„Við höfum það sem þema í samstarfsbjórum okkar hjá Borg að fá listafólk til að fremja list sína á umbúðirnar og höfum við verið mjög ánægð með útkomuna til þessa. Þegar samstarf við Gæðing lá fyrir var ákveðið að reyna að fá Hugleik til liðs við okkur þar sem hann teiknaði jú umbúðir og vörumerki Gæðings sem er einkar glæsilegt,“ segir Valgeir. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×