Viðskipti innlent

Sjóður Landsbréfa kaupir stóran hlut í Tíu-Ellefu og Dunkin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Horn III, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa hf., hefur keypt 80% hlut í Basko ehf. 

Basko fer með eignarhald á Rekstrarfélagi Tíu Ellefu, Ísland-Verslun og Imtex ehf. Rekstrarfélag Tíu Ellefu ehf. rekur samtals 35 þægindavöruverslanir undir merkjum 10-11 og Háskólabúðarinnar og er einnig móðurfélag Drangaskers, sem rekur Dunkin Donuts kaffihúsin.

Þá rekur félagið hamborgarastað undir nafninu Bad Boys. Ísland-Verslun hf. rekur þrjár matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu undir merkjum Iceland og Imtex ehf. annast innflutning og rekur vöruhús fyrir Basko samstæðuna.

Afhending hlutafjárins hefur farið fram en kaupverð er trúnaðarmál. Seljendur hlutarins eru tengd stjórnendum Basko og breska matvöruverslunin Iceland Foods.

Árni Pétur Jónsson verður áfram forstjóri Basko ehf. og er eftir kaupin næst stærsti hluthafi félagsins. „Það að fá Horn III inn sem hluthafa í Basko mun styrkja félagið og gefa okkur aukinn kraft,“ segir Árni Pétur í tilkynningu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×