Innlent

Vígdis segir „bjórdílera“ dæmi um hvernig það sem er bannað fari undir yfirborðið

Birgir Olgeirsson skrifar
„Ég er orðin pínu leið á þessu því þetta í svo miklu málþófi,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, um áfengisfrumvarpið í Brennslunni á FM957 í morgun. Vigdís sagði að búið væri að verja allt of miklu tíma í þetta mál og það væri kominn tími á að leggja það fyrir þingið og fá niðurstöðu.

Hægt er að hlusta á spjallið í spilaranum hér fyrir ofan. 

„Við erum kosin þannig á þing, það er fulltrúalýðræði hérna og þá verðum við að sjá hvernig atkvæði liggja í stað að halda þinginu viku eftir viku eftir viku uppteknu af því að ræða þetta og við komum ekki þjóðþrifamálum á dagskrá,“ sagði Vigdís.

Hún sagði ekki hafa gefið út hvort hún muni greiða með eða á móti frumvarpinu en sagðist skilja bæði sjónarmið, það er þeirra sem vilja vín í matvöruverslanir og þeirra sem vilja það ekki.

Möguleiki á millileið

„Ég held að það sé millileið þarna, ég tel að það sé hægt að taka þetta úr ríkisrekstri. Ríkið á ekki að standa í svona ríkisrekstri, koma þessu frekar í hendur einkaaðila en hafa þetta samt í sérvöruverslun, til að losa ríkið undan þessum rekstri,“ sagði Vigdís.

Hún sagði áfengisgjaldið skila ríkinu tekjum en rekstur ÁTVR sé hins vegar oftast í kringum núllið. „Það er augljóst að það mætti bæta reksturinn. ÁTVR er ekki að skila arði til ríkisins, þá er þetta kannski betur komið í höndum einkaaðila,“ sagði Vigdís.

„Gamli góði dílerinn var mættur í hús“

Annar af þáttastjórnendum Brennslunnar, Hjörvar Hafliðason, sagði sögu af því hver ein af birtingarmyndum þessa fyrirkomulags á áfengissölu hér á landi getur verið. Nágranni hans hafði bankað upp á á sunnudegi og spurt hvort hann ætti nokkuð bjór fyrir hann. Hjörvar svaraði neitandi en þá sagði nágranninn það vera í góðu lagi, hann gæti reddað þessu.

Skömmu síðar tekur Hjörvar eftir bíl sem er ekið inn á bílaplanið. Það reyndist vera maður sem selur bjór til þeirra sem bráðvantar utan opnunartíma ÁTVR. „Hann var að versla sér bjór á Íslandi og gamli góði dílerinn var mættur hús,“ sagði Hjörvar sem lýsti „dílernum“ sem vinalegum náunga sem var með heimsendingu á bjór og gekk með hann upp nokkrar hæðir, alveg upp að dyrum nágrannans.

Vigdís sagði þetta dæmi um að ef eitthvað er bannað, þá fer það undir yfirborðið.

Þau voru þó öll, það er að segja Vigdís, Hjörvar og Kjartan Atli Kjartansson, að þau hefðu skilning á sjónarmiðum þeirra sem óttast afleiðingarnar ef sala á bjór verður leyfð í matvöruverslunum en töldu þó ákveðna millileið færa, það er að færa áfengissöluna úr ríkisrekstri í einkareknar sérvöruverslanir. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×