Könnunin var gerð frá 9. til 14. desember síðastliðinn og úrtakið var 942 manns.
Mest traust til Rúv
Af þeim miðlum sem kannaðir voru báru flestir þeirra sem tóku afstöðu mikið traust til Fréttastofu RÚV eða 69 prósent. Örlítið færri sögðust bera mikið traust til ruv.is eða 67 prósent.
Á eftir Fréttastofu Rúv og ruv.is kemur Fréttastofa Stöðvar 2 en 41 prósent þátttakenda kvaðst bera mikið traust til hennar.

Af þeim netmiðlum sem spurt var um mældist mbl.is með mest traust, eða 41 prósent. Þar á eftir kemur visir.is með 33 prósent.
Morgunblaðið er sá prentmiðill sem flestir sögðust bera mikið traust til, eða 37 prósent. Af aðspurðum bera 30 prósent mikið traust til Fréttablaðsins.
Hins vegar ber að geta þess að ögn fleiri sögðust bera „frekar lítið“ eða „mjög lítið“ traust til Morgunblaðsins, eða 34 prósent heldur en Fréttablaðsins sem nýtur frekar lítils eða mjög lítils trausts 29 prósenta aðspurðra.
Sá miðill sem fólk treystir hvað minnst er DV og DV.is en 66 prósent aðspurðra sögðust bera frekar lítið eða lítið traust til miðilsins. Pressan og Morgunblaðið koma í kjölfarið.

Það sem helst dregur til tíðinda frá því að könnunin var gerð síðast er að fleiri bera lítið traust til fjölmiðla, eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Traust til fjölmiðla hefur jafnframt farið þverrandi frá fyrstu könnuninni 2012.
