Fréttablaðið greindi frá því í gær að ekkert útlit væri fyrir að leigubílaþjónusta Uber kæmi til höfuðborgarinnar þar sem svör Samgöngustofu og innanríkisráðuneytisins voru þau að engin samskipti hefðu átt sér stað milli aðila varðandi hugsanlega starfsemi. Greint var frá því árið 2014 að nægar undirskriftir hefðu safnast til þess að Uber hæfi vinnu við komu til borgarinnar.

Hins vegar verður að teljast ólíklegt að slíkt leyfi fáist ef mið er tekið af löggjöf um leigubílaleyfi en í svari Samgöngustofu við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að starfsemi Uber falli ekki undir lög og reglur sem gilda um leigubílastarfsemi. Á meðal þess helsta sem þyrfti að gera til þess að slík starfsemi gæti verið hér á landi væri að gefa leigubílastarfsemi frjálsa. Nú eru leigubílaleyfi hins vegar takmörkuð.
Meint brot á reglum hafa hins vegar ekki stöðvað starfsemi Uber í útlendum borgum og hefur fjöldi mála verið höfðaður gegn fyrirtækinu. Meðal annars í Kaliforníuríki Bandaríkjanna til þess að skera úr um hvort bílstjórar Uber teljist sjálfstæðir verktakar eða starfsmenn fyrirtækisins.
Þá standa nú yfir deilur á milli Uber og bifreiðaeftirlits sama ríkis en eftirlitið telur prófanir Uber á sjálfkeyrandi bílum ekki standast reglur þar sem Uber hefur ekki tilskilin leyfi til slíkra prófana.
Í svari Uber við fyrirspurn Fréttablaðsins segir enn fremur: „Við vonumst til þess að vera með ykkur eins fljótt og auðið er. En við erum hins vegar ekki komin með neina dagsetningu á slíka komu enn sem komið er.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.