Fótbolti

Fagmennskan í Indlandi kom Eiði á óvart

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. vísir/getty
Næsta ævintýri Eiðs Smára Guðjohnsen verður áhugavert en hann er að fara að leika með FC Pune City í indverska boltanum.

Indversku ofurdeildin er aðeins tveggja ára gömul og tímabilið mjög stutt eða rétt rúmir tveir mánuðir. Deildin hefst um næstu mánaðarmót.

„Ég hef nú ekki getað fylgst mikið með deildinni frá Evrópu en miðað við æfingarnar þá ná indversku og erlendu leikmennirnir vel saman. Nú snýst þetta um finna jafnvægið fyrir tímabilið,“ segir Eiður Smári í viðtali við The Field.

Eldri stjörnur hafa reynt fyrir sér í þessari deild en Eiður segist ekki hafa talað við þá og spurt út í hvernig væri að spila þarna. Hann sé einfaldlega ekki í sambandi við þá leikmenn. Honum líst þó vel á það sem hann hefur séð.

„Það kom mér þægilega á óvart hvað það er mikil fagmennska í gangi. Það er það mikilvægasta að mínu mati. Æfingaaðstaðan var frábær. Hvað varðar indversku leikmennina þá get ég ekki tekið einhvern einn úr en ég verð að segja að þeir búa yfir miklum gæðum. Þeir eru að leggja hart að sér og alltaf til í að bæta sig.“

Eiður Smári talar einnig um EM-ævintýri Íslands í viðtalinu en á hann einhver ráð fyrir indverska knattspyrnu?

„Það hefur tekið tíma að þróa svona gott landslið. Hvort okkar kerfi sé fullkomið veit enginn en það virkaði mjög vel fyrir okkur. Indland verður að finna þá leið sem hentar þeim best,“ segir Eiður en er auðveldara að móta lið í minna landi en stóru eins og Indlandi?

„Það er erfitt að segja. Það er ekki mikil fjarlægð á Íslandi og auðvelt að setja upp sterka deild. Krakkarnir þurfa ekki að fara langt til þess að komast í fótbolta. Indland er risastórt og þarf að finna hvaða leið sé hentar með þennan mikla mannfjölda.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×