Erlent

Lögreglan í Rio hefur banað átta þúsund manns á áratug

Samúel Karl Ólason skrifar
Óeirðasveit lögreglunnar í Rio við æfingar.
Óeirðasveit lögreglunnar í Rio við æfingar. Vísir/EPA
Lögregluþjónar í Rio de Janeiro, höfuðborg Brasilíu, hafa banað rúmlega átta þúsund manns á einum áratug. Þar af eru 645 í fyrra. Mannréttindasamtök segja lögregluþjóna hafa skotið óvopnað fólk og jafnvel tekið fanga af lífi.

Human Rights Watch segja reglulega skjóti þungvopnaðir meðlimir glæpagegngja á lögregluþjóna í borginni go að meirihluti banaskota lögreglunnar séu í sjálfsvörn. Hins vegar ræddu samtökin við lögregluþjóna sem sögðust hafa tekið þátt í aftökum. Þá komust samtökin yfir myndbönd, meðal annars af lögregluþjónum að skjóta á óvopnuð ungmenni og að falsa sönnunargögn.

Farið er yfir málið í nýrri skýrslu frá HRW.

HRW tóku viðtöl við 34 lögregluþjóna, auk saksóknara, rannsakenda og fjölskyldumeðlimi fórnarlamba lögreglunnar.

Einn lögregluþjónn sagði frá því að hann hefði tekið þátt í lögregluaðgerð þar sem markmiðið var að drepa fíkniefnasmyglara. Hann sagði aðra lögregluþjóna hafa rænt smyglurum og reynt að fá lausnafé fyrir þá, en svo hafi smyglararnir verið myrtir.

Þá hafi lögregluþjónar einnig tekið við mútum í skiptum fyrir að láta starfsemi ákveðinna gengja eiga sig.

Hækkandi glæpatíðni í Rio hefur valdið áhyggjum á síðustu mánuðum, en innan við mánuður er í að Ólympíuleikarnir hefjast þar í borg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×