Viðskipti innlent

Íslenskir fjárfestar selja Invent Farma með miklum hagnaði

ingvar haraldsson skrifar
Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands fagnar þeirri góðu ávöxtun sem Invent Farma hafi skilað.
Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands fagnar þeirri góðu ávöxtun sem Invent Farma hafi skilað.
Hópur íslenskra fjárfesta hefur selt spænska lyfjafyrirtækið Invent Farma. Kaupendurnir eru sjóðir  leiddir eru af ráðgjafafyrirtækinu Apax Partners. Invent Farma var að mestu í eig Framtakssjóðs Íslands (FSÍ), Silfurbergs, í eigu Friðriks Steins Kristjánssonar, og fjárfestingarsjóðsins Horn II. Verðið í viðskiptunum er trúnaðarmál en engu síður hafi fjárfesting íslensku félaganna skilað afbragðs arðsemi að því erf fram kemur í tilkynningu.

Invent Farma á rætur að rekja til kaupa íslenskra fjárfesta undir forystu Friðriks Steins Kristjánssonar á lyfjaverksmiðju á Spáni árið 2005. Framtakssjóður Íslands keypti 38% hlut sumarið 2013 og Horn ásamt meðfjárfestum 16,8% af hluthöfum félagsins. FSÍ, Silfurberg og Horn stærstu hluthafar félagsins.

„Ástæða þessa góða árangurs er að þær áherslur um vöxt, einföldun rekstrar og efnahags sem og velheppnaðar fjárfestingar sem FSÍ lagði upp með í upphafi gengu allar eftir. Við höfum einnig átt afar gott samstarf við Friðrik Stein Kristjánsson sem býr yfir mikilli þekkingu á greininni og Horn II. Við skilum af okkur mjög öflugu fyrirtæki til nýrra eigenda,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands.

Framleiðsla félagsins skiptist í samheitalyfjaframleiðslu og framleiðslu á virkum lyfjaefnum. „Félagið markaðssetur og selur samheitalyf undir eigin vörumerkjum á Spáni, en selur lyf og virk lyfjaefni í heildsölu til fyrirtækja á öðrum mörkuðum. Sala félagsins er vel dreifð, bæði landfræðilega og eftir viðskiptavinum, sem dregur úr áhættu í rekstri félagsins,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×