Erlent

Majorkabúar þreyttir á ferðamönnum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Búist er við yfir 10 milljónum ferðamanna til Majorka í ár.
Búist er við yfir 10 milljónum ferðamanna til Majorka í ár. NORDICPHOTOS/GETTY
Íbúar Majorka í Miðjarðarhafi eru orðnir pirraðir á sívaxandi fjölda ferðamanna á eyjunni. Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins má sjá letrað á húsveggi í gamla bænum í Palma að ferðamenn séu hryðjuverkamenn og að þeir eigi að fara heim.

Íbúarnir kvarta undan því að húsnæðisverð hafi hækkað vegna komu ferðamanna og að nær ómögulegt sé að finna laus bílastæði auk þess sem hefðbundin bæjarmynd sé að eyðileggjast.

Af ótta við hryðjuverk fara nú færri ferðamenn til Norður-Afríku og Tyrklands. Fleiri leggja leið sína til Majorka og er búist við að þangað komi yfir 10 milljónir ferðamanna í ár eða rúmri milljón fleiri en í fyrra. Einn ágústdag í fyrra voru ferðamennirnir á Majorka ein milljón, eða jafnmargir og íbúar  eyjunnar.

Um 40 prósent kaupenda íbúðarhúsnæðis á Majorka eru útlendingar samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins sem vitnar í þýsku fasteignasöluna Engel & Voelkers.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×