Handbolti

Guðmundur fann upp á dínamíska tvíeykinu í hálfleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mikkel Hansel, Michael Damgaard og uppfinningamaðurinn Guðmundur Guðmundsson.
Mikkel Hansel, Michael Damgaard og uppfinningamaðurinn Guðmundur Guðmundsson. vísir/epa/afp
Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í danska landsliðinu geta farið langt með að tryggja sér sæti í undanúrslitum á EM 2016 í Póllandi í kvöld með sigri á nágrönnum þeirra frá Svíþjóð.

Danir eru búnir að vinna alla fjóra leiki sína á EM; þrjá í riðlakeppninni og einn í milliriðli tvö. Þeir eru eina liðið með fullt hús stiga á mótinu.

Danska liðið lenti í kröppum dansi á móti frábæru liði Spánar á sunnudaginn en vann engu að síður sjötta sigurinn í röð, 27-23.

Spánverjar voru yfir í hálfleik, 14-11, og var því um sjö marka sveiflu að ræða í seinni hálfleiknum, en fyrir hann gerði Guðmundur snilldar breytingu á liði sínu sem skilaði mun betri sóknarleik.

Danska blaðið Ekstra Bladet fjallar um þetta á heimasíðu sinni í dag og hrósar Guðmundi mikið fyrir breytinguna sem fólst í því að færa stórskyttuna Mikkel Hansen í leikstjórnandahlutverkið og hafa Michael Damgaard í skyttunni.

„Guðmundur vann taktísku baráttuna við spænska kollega sinn og sýndi að hann getur notað sína leikmenn á mismunandi hátt,“ segir í grein danska blaðsins.

„Mads Mensah Larsen var látinn spila fjórar mismunandi stður í vörninni en það merkilegasta var þegar hann færði Mikkel Hansen í leikstjórnandann og notaði Michael Damgaard í skyttunni vinstra megin. Þeir urðu strax dínamískt tvíeyki.“

Aðspurður hvort þetta var á teikniborðinu fyrir leik sagði Guðmundur að svo hefði ekki verið.

„Ég ákvað þetta þegar við gengum til búningsklefa í hálfleik. Ég fékk hugmyndina og ákvað að framkvæmda hana strax. Þetta gekk vel. Við vorum einbeittir og stóðum okkur vel. Jesper Nöddesbo kom líka sterkur inn og hjálpaði okkur með nokkrum mörkum. Bæði Mikkel og Damgaard fundu hann á línunni,“ sagði Guðmundur Guðmundsson um dínamíska tvíeykið sitt.

Mikkel Hansen skoraði ekki mikið í leiknum; aðeins þrjú mörk í sjö skotum, en hann lagði upp níu mörk á meðan Damgaard skoraði sex mörk og lagði upp tvö.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×