Viðskipti innlent

Reykjanesbær óskar eftir fresti til að semja við kröfuhafa

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hallarekstur hefur verið hjá Reykjanesbæ þrettán ár af síðustu fimmtán.
Hallarekstur hefur verið hjá Reykjanesbæ þrettán ár af síðustu fimmtán. vísir/gva
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar og stjórn Reykjaneshafnar hafa óskað eftir lengri tíma til að komast að samkomulagi við kröfuhafa um breytingar á skuldum aðilanna. Bókun þess efnis var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í dag.

Fjármál Reykjanesbæjar hafa verið í gífurlegri óreglu að undanförnu. Í apríl lagði bæjarráð það til við bæjarstjórn að óskað verði eftir því að innanríkisráðuneytið skipaði bænum fjárhaldsstjórn sem tæki yfir fjármál hans.

Í upphafi maímánaðar var tilkynnt um að samningar við kröfuhafa væru ekki í sjónmáli og greiðslufall blasti við bænum að óbreyttu.

Í bréfi sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi Reykjanesbæ þann 18. maí síðastliðinn kemur fram að það sé mat nefndarinnar að ekki verði hjá því komist að skipa fjárhaldsstjórn. Áður en slík nefnd er skipuð er bæjarfélagi gefinn kostur að koma á framfæri athugasemdum.

„Frá því að [...] tilkynning var send eftirlitsnefndinni [...] hefur viðræðum við kröfuhafa verið fram haldið og því enn von til þess að frjálsir samningar um breytingar á skuldum Reykjanesbæjar náist. Slíkir samningar myndu um leið létta á greiðslubyrði þess og gera því kleift að leggja fram raunhæfa aðlögunaráætlun eins og lög gera ráð fyrir,“ segir í skeyti bæjarstjórnar til eftirlitsnefndarinnar.

Að auki hefur stjórn Reykjaneshafnar óskað eftir greiðslufresti og kyrrstöðutímabili við kröfuhafa hafnarinnar á meðan viðræðum aðila stendur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×