Viðskipti innlent

Örðugleikar í lestarkerfum Evrópu hafa áhrif á afkomu Samskipa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hagnaður félagsins lækkaði lítillega á milli ára.
Hagnaður félagsins lækkaði lítillega á milli ára. Mynd/Samskip
Rekstrartekjur Samskipa-samstæðunnar hækkuðu um 7,7 prósent á milli ára og voru 91 milljarður króna, samanborið við 85 milljarða króna, árið 2014. Hagnaður félagsins lækkaði þó lítillega á milli ára. Örðugleikar í lestarkerfum í Evrópu eru helsta ástæðan fyrir lægri afkomu á árinu. 

Hagnaður Samskipa-samstæðunnar árið 2015 nam 1,3 milljörðum króna, í samanburði við 1,4 milljarðar króna, árið 2014. EBITDA, afkoma áður en tekið er tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta, lækkaði lítillega milli ára en hún nam 3 milljörðum króna 2015 samanborið við 3,1 milljarð króna árið 2014.

Heildareignir Samskipa-samstæðunnar 38 milljörðum króna, í lok árs 2015 og jukust um ISK 5,9 milljarða milli ára eða um 18,5 prósent. Fastafjármunir námu 18 milljörðum í árslok samanborið við 13 milljarða í árslok 2014.

Fjárfestingar í rekstrarfjármunum á árinu námu 5,7 milljörðum. Félagið keypti m.a. tvö gámaskip, Samskip Skaftafell og Samskip Hoffell. Bæði skipin þjóna Íslandsmarkaði og Noregsmarkaði. Jafnframt fjárfesti Samskip í fjórum frystiskipum í nóvember 2015 og munu þau koma að fullu inn í rekstur félagsins á árinu 2016.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að almennt séu horfur í rekstri ágætar en óvissa ríki þó um þróun mála sem geta haft veruleg áhrif á rekstur félagsins.

„Má þar helst nefna ákvörðun Bretlands um hugsanlega úrsögn úr Evrópusambandinu sem kosið verður um í júní. Kjósi Bretland að yfirgefa Evrópusambandið mun ákvörðunin hafa mikil áhrif, bæði í Bretlandi og á meginlandi Evrópu en báðir þessir markaðir eru mikilvægir fyrir Samskip,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×