Innlent

Hækkun á launum alþingismanna tuttuguföld á við hækkun örorkubóta

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Laun alþingismanna hækkuðu um 45 prósent nú um mánaðamótin.
Laun alþingismanna hækkuðu um 45 prósent nú um mánaðamótin. Vísir
Öryrkjabandalag Íslands harmar úrskurð kjararáðs um hækkun þingfararkaups alþingismanna, launa ráðherra og forseta Íslands. Í tilkynningu frá bandalaginu kemur fram að örorkulífeyrisþegar hafi ekki fengið raunverulegar kjarabætur á um árabil.

„Laun þessa hóps [alþingismanna, ráðherra og forseta] hafa hækkað í tvígang á þessu ári. Hjá þingmönnum hefur þingfararkaup hækkað um 389.164 krónur á mánuði. Laun hjá forsætisráðherra hafa hækkað um 630.492 krónur, laun annarra ráðherra um 568.848 krónur og laun forseta Íslands um 670.170 krónur. Á sama tíma hefur óskertur lífeyrir almannatrygginga hækkað um 18.814 krónur á mánuði og óskertur lífeyrir almannatrygginga með heimilisuppbót um 21.832 krónur,” segir í tilkynningunni.

Öryrkjabandalagið bendir á að enn búa sumir landsmenn við örbrigð. „Staðan í dag er því miður sú að samkvæmt nýjum rannsóknum búa börn á Íslandi við skort. Íslenska ríkinu hefur ekki tekist að tryggja mannsæmandi framfærslu allra eða að tryggja það að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi. Grunnréttur fólks er ekki að fullu virtur.”

Að endingu skorar ÖBÍ á nýja ríkisstjórn að sjá til þess að allir sitji við sama borð þegar kemur að kjarabótum og ekki síst örorkulífeyrisþegar.

Á meðfylgjandi mynd frá ÖBÍ má sjá hækkun launa alþingismanna, ráðherra og forseta Íslands í samanburði við hækkun almannatryggingalífeyris. 

Súluritið sýnir mun á launahækkunum ráðherra, forseta og alþingismanna í samanburði við hækkun á lífeyri almannatrygginga á árinu.mynd/öbí

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×