Viðskipti innlent

Halldór Bjarkar hættir hjá Arion

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Halldór Bjarkar Lúðvígsson lætur af störfum hjá Arion.
Halldór Bjarkar Lúðvígsson lætur af störfum hjá Arion.
Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion, mun láta af störfum hjá bankanum á næstu dögum. Þetta staðfestir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion, í samtali við Vísi. Ákvörðunin var tilkynnt í morgun.

Halldór Bjarkar tók við starfi framkvæmdastjóra fjárfestingarbankasviðs Arion banka í september 2011. Á árunum 2010 til 2011 var hann framkvæmdastjóri fyrirtækjaþjónustu Arion banka. Hann vann fyrir skilanefnd Kaupþings um skeið og á árunum 2005 til 2008 starfaði Halldór á útlánasviði Kaupþings banka.

Halldór Bjarkar var lykilvitni í þeim málum sem sérstakur saksóknari hefur rekið gegn stjórnendum Kaupþings. Í niðurstöðu Héraðsdóms í svokölluðu Chesterfield-máli, sem kveðinn var upp fyrr í vikunni, kemur fram að Halldór Bjarkar hafi verið óstöðugur í skýrslum sem hann gaf í málinu, annars vegar undir rannsókn málsins og hins vegar fyrir dómi.

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, hefur sakað Halldór Bjarkar um innherjasvik þegar hann seldi bréf í Kaupþingi fáeinum dögum áður en bankinn féll. Þeim ásökunum hefur Halldór Bjarkar hafnað með yfirlýsingu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×