Erlent

Bandarískur þingmaður fundinn sekur um spillingu

Atli Ísleifsson skrifar
Chaka Fattah er þingmaður Demókrataflokksins og hefur átt sæti í fulltrúadeildinni í rúm tuttugu ár. Hann er hér annar frá hægri.
Chaka Fattah er þingmaður Demókrataflokksins og hefur átt sæti í fulltrúadeildinni í rúm tuttugu ár. Hann er hér annar frá hægri. Vísir/AFP
Dómstóll í Bandaríkjunum dæmdi í dag þingmanninn Chaka Fattah sekan um spillingu, en ákæruliðirnir sneru meðal annars að fjárkúgun, fjársvikum og peningaþvætti.

Dómstóllinn sagði að þingmaðurinn hafi með háttsemi sinni reynt að auðgast persónulega og framlengja líf sitt í stjórnmálum, en í frétt BBC segir að hinn 59 ára Fattah hafi verið dæmdur sekur af alls 23 ákæruliðum.

Verjendur þingmannsins segja að brotin hafi verið framin af tveimur ráðgjöfum Fattah og án hans vitundar. Umræddir ráðgjafar hafa þegar viðurkennt aðild sína að brotunum, en alls voru fjórir menn ákærðir í málinu, auk Fattah.

Hann var meðal annars dæmdur fyrir að hafa nýtt fé úr kosningasjóðum til að endurgreiða námslán sonar síns og skráð mútufé sem hann fékk úr hendi fulltrúa hagsmunahóps sem greiðslu fyrir bíl sem hann seldi aldrei.

Demókratinn Fattah hefur átt sæti í fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Pennsylvaníu-ríki í rúma tvo áratugi, en dómur yfir honum verður kveðinn upp í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×