Enn er óvíst hvort afstaða hljómsveitana sjö sem hættu við að spila á Þjóðhátíð í gær sé breytt. Þær tilkynntu í gær að þær myndu ekki koma fram nema að skýr stefnubreyting yrði hjá lögregluyfirvöldum varðandi kynferðisbrot. Tvær hljómsveitir bættust í hópinn í gær eftir að Retro Stefson, Agent Fresco, Úlfur Úlfur, Emmsjé Gauti og Sturla Atlas tilkynntu um ákvörðun sína. Það voru rokkhljómsveitin Dikta og rapparinn GKR.
Í gærkvöldi tilkynnti Þjóðhátíðarnefnd að Stígamótum yrði boðið að vera með aðstöðu á hátíðinni. Það fullnægir ekki kröfum hljómsveitanna fimm sem sendu tilkynninguna frá sér nema að hluta. En þeirra krafa var að lögreglustjóri myndi breyta afstöðu sinni varðandi tilkynningu á kynferðisbrotum. Einnig var það krafa þeirra að Þjóðhátíðarnefnd og bæjaryfirvöld tryggðu að það yrði farið eftir þeim vinnuaðferðum í Eyjum sem Stígamót og Landsspítalinn hafa tileinkað sér í þessum málum.
Í gær var tilkynnt að hljómsveitin Quarashi, sem auglýst hefur verið sem aðalnúmer hátíðarinnar í ár, styddi ákvörðun sveitanna. Þá sagði Sölvi Blöndal, liðsmaður sveitarinnar, að fundað yrði um málið innanbúða í gærkvöldi. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að Quarashi hafi einnig fundað með Þjóðhátíðarnefnd en ekki er vitað hvað fór þeirra á milli. Búast má við tilkynningu um málið frá Quarashi síðar í dag.
Keflavík
Grindavík