Enski boltinn

Stóri Sam líklegastur til að taka við Crystal Palace

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Enska landsliðið vann eina leikinn undir stjórn Sams Allardyce.
Enska landsliðið vann eina leikinn undir stjórn Sams Allardyce. vísir/getty
Sam Allardyce þykir líklegastur til að taka við enska úrvalsdeildarliðinu Crystal Palace af Alan Pardew sem var rekinn fyrr í dag.

Samkvæmt heimildum Sky Sports mun Allardyce hefja viðræður við forráðamenn Palace á næsta sólarhringnum.

Ekkert samkomulag er þó í höfn en Allardyce vill fá að vita hversu miklu hann getur eytt í leikmenn í næsta félagaskiptaglugga. Hann vill einnig vita hvernig samstarfinu við Steve Parish, stjórnarformann Palace, og bandaríska eigendur félagsins verður háttað.

Allardyce hætti sem kunnugt er með enska landsliðið í september eftir uppljóstranir the Telegraph. Hinn 62 ára gamli Allardyce er þó hvergi hættur og hefur lýst yfir áhuga sínum á að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina.

Meðal annarra sem hafa verið nefndir sem mögulegir arftakar Pardews eru Chris Coleman, landsliðsþjálfari Wales, og Roy Hodgson, fyrrverandi þjálfari enska landsliðsins.

Palace er í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 15 stig, einu stigi frá fallsæti. Liðið hefur tapað átta af síðustu 10 deildarleikjum sínum. Næsti leikur Palace er gegn Watford í hádeginu á öðrum degi jóla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×