Enski boltinn

Conte gaf leikmönnum Chelsea frí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte fagnar síðasta sigri Chelsea.
Antonio Conte fagnar síðasta sigri Chelsea. Vísir/Getty
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, vildi gefa sínum leikmönnum tækifæri til að hlaða aðeins batteríin fyrir alla leikina yfir hátíðirnar.

Cheslea hefur unnið ellefu leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni og er með sex stiga forystu á Liverpool á toppnum.

Conte gaf leikmönnum sínum þriggja daga frí eftir sigurinn á móti Crystal Palace um síðustu helgi.

Tveir lykilmenn Chelsea-liðsins, markavélin Diego Costa og miðjubrjóturinn N'Golo Kante, taka út leikbann í leiknum á móti Bournemouth á annan dag jóla.

„Ég gaf þeim þriggja daga frí af því ég taldi að mínir leikmenn ættu það skilið eftir mikið álag og þrjá leiki á aðeins sex dögum,“ sagði Antonio Conte á blaðamannafundi fyrir leikinn við Bournemouth.

„Það var mitt mat að besta leiðin að endurheimt væri að fá þriggja daga frí,“ sagði Conte.

„Í þessari deild eru mörg lið sem geta barist um Meistaradeildartitilinn, Englandsmeistaratitilinn og Evrópudeildartitilinn. Við vitum allir að þetta verður ekki auðvelt en við munum reyna að halda áfram að spila eins og við höfum verið að gera,“ sagði Conte.

Chelsea-liðið hefur ekki tapað stigi í ensku úrvalsdeildinni síðan liðið tapaði 3-0 á móti Arsenal 24. september síðastliðinn.

Síðan þá hefur Chelsea unnið ellefu deildarleiki í röð og aðeins fengið á sig tvö mörk í þeim. Þrír síðustu leikir og fjórir af síðustu sex hafa endað með 1-0 sigri Chelsea.

Liðin sem Chelsea hefur unnið í einum rykk eru Hull (2-0), Leicester City (3-0), Manchester United (4-0), Southampton (2-0), Everton (5-0), Middlesbrough (1-0), Tottenham (2-1), Manchester City (3-1), West Bromwich Albion (1-0), Sunerland ()1-0) og Crystal Palace (1-0).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×