Erlent

Ikea biður fólk um að hætta að gista í búðinni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Nokkurs konar tískubylgja fór af stað eftir piltarnir tveir birtu myndbandið á Youtube - við lítinn fögnuð eigendanna.
Nokkurs konar tískubylgja fór af stað eftir piltarnir tveir birtu myndbandið á Youtube - við lítinn fögnuð eigendanna. vísir/getty
Ungmenni hafa að undanförnu reynt að eyða nóttunni í Ikea eftir að tveir ungir Belgar birtu myndband af því þegar þeir gistu í versluninni. Rekstraraðilar Ikea hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir biðja fólk um að hætta að reyna að freista þess að gista í búðinni.

Belgarnir birtu myndbandið í ágúst og síðan þá hefur Ikea fengið um tíu næturgesti í verslanir sínar víða um heim. Nú nýlega voru það tvær fjórtán ára stúlkur sem hugðust sofa í verslun í Jankoping í Svíþjóð. Þeim mistókst hins vegar því öryggisvörður fann stúlkurnar. Ikea ákvað að kæra ekki stúlkurnar sökum aldurs.

Í október síðastliðnum lagði Ikea fram kæru á hendur tveimur fimmtán ára stúlkum frá Svíþjóð sem höfðu komist upp með að eyða nóttunni í verslun einni. Þær lokuðu sig hins vegar inni í fataskáp alla nóttina af ótta við að öryggiskerfið færi í gang.

Talsmaður Ikea í Bretlandi segir í samtali við breska ríkisútvarpið að rekstraraðilar kunni að meta það að fólk sýni versluninni áhuga en að öryggi starfsfólks og viðskiptavina sé í algjörum forgangi. Þar af leiðandi sé ekki hægt að leyfa fólki að gista

Alls hafa um 1,7 milljón manns horft á myndband Belganna ungu frá því í ágúst. Þeir eyddu alls þremur klukkustundum inni í skáp áður en þeir héldu af stað inn í búðina, hoppuðu á rúmum og höfðu gaman. Myndband Belganna varð svo vinsælt að ungmenni um allan heim hafa tekið upp á að leika þetta eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×