Lífið

Lýsir því hvernig hann smyglaði Ali G inn á Óskarinn: „Laug að þeim að ég væri með rosalegan niðurgang“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sacha Baron Cohen var hjá Howard Stern á dögunum.
Sacha Baron Cohen var hjá Howard Stern á dögunum. vísir/getty
Sacha Baron Cohen mætti sem Ali G á Óskarsverðlaunahátíðina sem afhent voru í Los Angeles í síðustu viku. Hann gerði töluvert grín að allri umræðu um kynþáttafordóma hjá akademíunni þegar hann afhenti verðlaun með leikkonunni Olivia Wilde.

Cohen var gestur í þætti Howard Stern á dögunum og lýsti þar hvernig hann kom Ali G inn á svæðið. Það hafði verið tekið skýrt fram við hann fyrir verðlaunaafhendinguna að hann mætti ekki vera í karakter á Óskarnum.

„Ég var nokkuð stressaður þar sem umræðan um mismunandi kynþætti hafði verið aðal umræðuefnið fyrir Óskarsverðlaunin í ár,“ sagði Cohen í þætti Stern.

„Þetta er mjög fyndið“

„Ég ákvað því að taka Ali G með mér. Þá er ég í karakter sem heldur í raun og veru að hann sé þeldökkur,“ sagði Cohen sem ræddi við grínistann Dave Chappelle rétt áður en hann fór á svið og fékk ráðleggingar hjá honum.

„Ég sagði honum fyrstu setninguna mína og spurði hvort þetta yrði nú ekki í lagi. Hann svaraði; þetta er mjög fyndið, hentu þér upp á svið og gerðu þetta.“

Cohen fór því næst inn á klósett með eiginkonu sinni í fjörutíu mínútur og hún varð að setja skeggið á hann og aðstoða hann við að setja kappann í búninginn fræga. Aðstandendur Óskarsins voru á þeim tíma að leita af Cohen út um allt.

„Ég fékk upplýsingafulltrúann minn til að segja þeim að ég væri með rosalegan niðurgang. Síðan þegar ég geng að sviðinu held ég fyrir andlitið á mér svo enginn myndi sjá skeggið. Síðan rétt áður en ég geng á sviðið með Olivia Wilde tilkynni ég henni að ég ætli að vera Ali G og hendi því næst húfunni á mig og geng af stað.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×