Niðurstöður rannsóknarnefndarinnar hafa verið birtar í skýrslu sem ber heitið: „They came to destroy“: ISIS Crimes Against the Yazidis.
Þúsundir kvenna og stúlkna voru teknar í gíslingu af ISIS en menn og drengir voru myrtir. Þúsunda er saknað og talið er að þeir liggi í fjöldagröfum í grennd við Sinjar fjall. Þegar hafa fjölmargar fjöldagrafir fundist en þær hafa ekki verið rannsakaðar nægjanlega, þar sem ISIS er enn með viðveru á svæðinu.
Fyrr í mánuðinum bárust fregnir af því að 19 konur hafi verið settar í búr og brenndar lifandi fyrir framan hundruð manna í Mosul. Þær voru sagðar hafa neitað að sænga hjá vígamönnum ISIS.
Sjá einnig: Raunir Jasída: Kynlífsþrælkun, þjóðarmorð og misþyrming
Rannsakendur Sameinuðu þjóðanna telja að um 400 þúsund Jasídar hafi haldið til á svæðinu við Sinjar fjall en nánast allir hafi verið reknir á brott, hnepptir í ánauð eða myrtir. Hægt gengur að endurheimta héraðið úr höndum ISIS en vígamennirnir skilja eftir sig mikla eyðileggingu, jarðsprengjur og gildrur.
Enn sem komið er búa langflestir Jasídar við bágan kost í flóttamannabúðum á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í norðurhluta Írak. Jasídar eru reiðir gagnvart alþjóðasamfélaginu. Þá sérstaklega þar sem þeim sýnist lítið vera gert til að bjarga þeim Jasídum sem enn eru í haldi ISIS.
Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að ISIS hefði markvisst unnið að því að gjöreyða menningu Jasída með morðum, kynlífsþrælkun, þrælkun, pyntingu og öðrum aðferðum. Nefndin leggur meðal annars til að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og íhuga fjölmargar aðgerðir til að koma Jasídum til hjálpar og þar á meðal að ráðið íhugi hernaðarlega íhlutun.
Ljóst er að tveimur árum eftir að Jasídar voru flestir reknir frá heimahögum sínum er raunum þeirra enn hvergi nærri lokið.