Erlent

Nautabani rekinn á hol í beinni útsendingu

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Félagar Barrio sjást hér bera hann helsærðan af velli.
Félagar Barrio sjást hér bera hann helsærðan af velli. vísir/epa
Victor Barrio, 29 ára gamall spænskur nautabani, lést í dag þegar hann var rekinn á hol af nauti. Atvikið átti sér stað í bænum Teruel á nautaatssýningu. Atið var sýnt í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þetta kemur fram á vef BBC.

Þetta er í fyrsta skipti á þessari öld sem nautabani lætur lífið í baráttu við andstæðing sinn. Í raun eru rúm þrjátíu ár síðan það gerðist síðast.

Samkvæmt samantekt blaðsins El Pais hafa 134 manneskjur á Spáni, þar af 33 nautabanar, fallið fyrir hornum nauta á síðustu hundrað árum.



Um tvöþúsund nautaöt fara fram á Spáni árlega en þeim fer sífækkandi. Tvö héruð, Kanaríeyjar og Katalónía, hafa bannað slíka viðburði en önnur hafa ekki gengið svo langt.

Andstæðingar nautahlaupa og nautaata segja að viðburðirnir séu villimannslegir og ómannúðlegir. Aðdáendur þeirra, þar á meðal er forsætisráðherrann Mariano Rajoy, segja hins vegar að forna hefð sé listræn og samtvinnuð sögu og menningu þjóðarinnar.

Í gær lést maður í nautahlaupi í Pedreguer eftir að hafa fengið nautshorn í gegnum hálsinn. Sá hafði beygt sig niður til að huga að öðrum hlaupara. Sama dag særðust fjórtán, þar af tveir alvarlega, í öðru nautahlaupi í Pamplona.

Barrio í öðru nautaati sem fram fór í maí. Þar var það nautið sem féll en ekki nautabaninn.vísir/epa



Fleiri fréttir

Sjá meira


×